Enski boltinn

N'Zonzi orðlaus yfir rauða spjaldinu sem hann fékk fyrir að brjóta á Birki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Birkir Bjarnason.
Birkir Bjarnason. vísir/getty
Birkir Bjarnason og félagar hans í Basel gerðu markalaust jafntefli í fyrri leik sínum gegn Evrópudeildarmeisturum Sevilla í 16 liða úrslitum keppninnar í gær.

Steven N'Zonzi, fyrrverandi miðjumaður Stoke, fékk að líta rauða spjaldið í leiknum en hann hefur spilað með Sevilla undanfarið eitt og hálft ár.

Steven N'Zonzi fór frá Stoke til Sevilla.vísir/getty
N'Zonzi fékk gult spjald fyrir brot á Renato Steffen á 75. mínútu og var svo sendur snemma í sturtu fyrir að gefa Birki Bjarnasyni olnbogaskot þremur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma.

Þessi 27 ára gamli Frakki er 190cm hár og fannst honum illa að sér vegið vegna hæðar sinnar. Vill hann meina að olnbogaskotið hafi verið óviljaverk.

„Ég var bara að reyna að skýla boltanum. Ég er hávaxinn og hann (Birkir) er lágvaxnari,“ sagði N'Zonzi eftir leikinn.

„Dómarinn verður að skilja að ég er stærri en flestir leikmenn og mótherjarnir reyna alltaf að gera meira úr svona stöðum. Að fá rautt spjald er ótrúlegt. Þetta er heldur ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist,“ sagði Steven N'Zonzi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×