Jordan Spieth, meistari síðasta árs á Valspar PGA-mótinu, fór illa af stað á mótinu í ár og spilaði á 76 höggum á fyrsta keppnisdegi.
Spieth átti frábært keppnistímabil í fyrra sem hófst með sigri hans á þessu móti en meðal móta sem hann vann á síðasta ári var Masters-mótið og opna bandaríska auk þess sem hann sankaði að sér öðrum titlum.
En Spieth komst aldrei í gang í gær og byrjaði á því að fá skolla af fimm af fyrstu sjö holunum sínum í gær. Hann endaði í 117. sæti og gæti því auðveldlega ekki komist í gegnum niðurskurðinn ef hann stórbætir sig ekki í dag.
Sjá einnig: Nær einhver að stríða Jordan Spieth á nýju ári?
Keegan Bradley, Charles Howell og Ken Duke eru efstir eftir fyrsta keppnisdag á 67 höggum en Bradley spilaði vel á flötinni í gær og púttaði aðeins 25 sinnum allan hringinn. Þetta var kærkomið fyrir Bradley sem hefur ekki komist í gegnum niðurskurðinn á fjórum af síðustu fimm PGA-mótum sínum.
Valspar-mótið er í beinni útsendingu á Golfstöðinni en útsending hefst klukkan 18.00 í kvöld.

