Innlent

Fjármálaráðherra segir kosið í haust: "Þetta stjórnarsamstarf var endurnýjað á þessum forsendum og það hafa engar forsendur breyst“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
„Þegar við endurnýjuðum samstarfsflokkana í vor þá voru breytingar í ríkisstjórninni. Við boðuðum á sama tíma að við ætlum að ljúka ákveðnum verkefnum og myndum síðan ganga til kosninga.“ Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við fréttastofu þegar hann kom til Bessastaða á ríkisráðsfund í morgun. 

Jafnframt segir fjármálaráðherra að ekkert virðist vera því til fyrirstöðu að hægt sé að kjósa seint í október, líkt og nefnt hefur verið.

Aðspurður hvort nýleg ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar séu á skjön við það sem stjórnarþingmenn hafa sagt síðustu mánuði segir ráðherrann það skipta máli að ekki sé mikill hringlandaháttur með þessa hluti. „Ég hef lagt á það áherslu að við stöndum við það sem að sagt hefur verið um þessi efni en á sama tíma að það sé starfsfriður á Alþingi, að við náum að ljúka mikilvægum verkefnum. Það gekk vel í vor, eins og forsætisráðherra hefur bent á var þingið starfsamt eftir að við komumst að þessari niðurstöðu. En nú erum við að hefja þingstörf aftur um miðjan ágúst og það er mjög mikið undir að það verði framgangur í þingstörfunum á þeim dögum sem að þá ganga í garð,“ sagði fjármálaráðherra.

Góður tími til að ganga til kosninga

Bjarni sagði jafnframt að ummæli Sigmundar komi sér í sjálfu sér ekki á óvart. „Það má alveg segja að það séu gild rök fyrir því að ríkisstjórnir eigi að starfa út kjörtímabilið. En það komu upp aðstæður og við brugðumst við þeim með þessum hætti og það hefur ekkert breyst í neinum forsendum hvað það snertir.“ Hann bendir jafnframt á að svipaðar aðstæður hafi komið upp árið 2009 og þá hafi þingmenn Sjálfstæðisflokksins stutt þá ákvörðun að gengið væri til kosninga.

Samkvæmt ráðherranum hefur gengið vel á þessu tímabili að fylgja málum ríkisstjórnarinnar eftir. „Betur en maður þorði að vona í raun og veru.“ Þá segir hann að tími sé kominn að líta upp og gera áætlanir til lengri tíma. „Og það er agætis tímapunktur, þegar þessi staða er komin upp, til þess að ganga til fundar við kjósendur og endurnýja umboð til þingsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×