Enski boltinn

Chelsea býður 38 milljónir punda í varnarmann Napoli

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir/getty
Enska úrvalsdeildarliðið Chelsea er búið að gera Napoli á Ítalíu 38 milljóna punda tilboð í senegalska varnarmanninn Kalidou Koulibaly, að því fram kemur á vef Sky Sports.

Antonio Conte, nýr knattspyrnustjóri Lundúnarliðsins, vill fá Koulibaly til að styrkja hjá sér varnarleikinn en Napoli á enn eftir að svara tilboði Chelsea.

Umboðsmaður leikmannsins staðfesti fyrr í þessari viku að Chelsea hefur mikinn áhuga á honum en hann neitar að skrifa undir nýjan samning við Napoli.

Kalidou Koulibaly gekk í raðir Napoli frá Genk í Belgíu árið 2014 og er með samning við liðið til 2019. Hann er búinn að spila 60 leiki í Seríu A fyrir Napoli og 19 Evrópuleiki.

Hann á að baki sex landsleiki fyrir Senegal eftir að spila nokkra leiki fyrir franska U20 ára liðið.

Takist Antonio Conte að landa Koulibaly verður hann þriðji maðurinn sem Ítalinn kaupir á Stamford Bridge en nú þegar er hann búinn að fá Michy Batshuayi frá Marseille og N'Golo Kante frá Leicester.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×