Innlent

Málverk, eiturlyf og sprautunálar fundust í bílunum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Jóhann segir bílana skemmda að innan og utan.
Jóhann segir bílana skemmda að innan og utan. mynd/jóhann friðrik
Bílarnir tveir sem stolið var frá fjölskyldu í Fossvogi í gær eru fundnir. Þeir fundust í Grafarholti og Norðlingaholti, báðir uppfullir af þýfi og ýmsum lyfjum. Annar bíllinn er töluvert skemmdur að sögn eigandans, Jóhanns Friðriks Haraldssonar.

„Annar bíllinn fannst út frá ábendingu nágranna, hann var á bílastæði í íbúðahverfi. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig hinn fannst en hann var á stóru bílaplani í Grafarholti fyrir aftan Húsasmiðjuna. Lögreglan tók annan bílinn, það var svo mikið þýfi í honum og hinn er nokkuð skemmdur. Hann var dreginn þannig að ég veit ekki hvort hann sé í ökuhæfu ástandi,“ segir Jóhann í samtali við Vísi.

Hann segir að í bílnum hafi fundist málverk, keðjusög, gashelluborð, lampi og snyrtivörur, svo fátt eitt sé nefnt. Þá hafi fundist sprautunál, eiturlyf og önnur lyfseðilsskyld lyf. „Þetta var eins og lítil taska sem var full af alls konar lyfjum og sprautunálum. Það voru einhverjar töflur og lyfseðilsskyld lyf. Ég bara rétt svo sá þetta áður en löggan tók þetta þannig að ég veit ekki alveg hvað þetta var.“

Jóhann segir að lögregla hafi strax fundið út hverjir voru að verki. Í bílnum hafi fundist símar og persónulegir munir og að um hafi verið að ræða góðkunningja lögreglunnar; karlmann og konu. Þær upplýsingar hafi fengist að þau væru bæði nýkomin út úr fangelsi. Hann segir næstu skref að ræða við tryggingafélagið og að lögregla sjái væntanlega um rest.

Bílarnir voru fyrir utan heimili Jóhanns við Traðarland í Fossvogi þegar þeir voru teknir. Þjófarnir höfðu, að sögn Jóhanns, brotist inn í bílskúr tengdaforeldra sinna sem búa í næsta húsi, og tekið aukalykla að bílunum þaðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×