Erlent

Cameron viðurkennir að hafa átt hlut í aflandsfélagi föður síns

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands Vísir/Getty
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur viðurkennt að hafa átt hlut í aflandsfélagi föður síns. Hann seldi sinn hlut með hagnaði fjórum mánuðum áður en hann varð forsætisráðherra.

Í viðtali við ITV sjónvarpsstöðina í Bretlandi viðurkenndi Cameron að hann og eiginkona sín hafi átt fimm þúsund hluti í Blairmore Holdings Inc á árunum 1997 til 2010. Seldu þau sinn hlut í janúar 2010, á meðan Cameron var leiðtogi bresku stjórnarandstöðunnar. Fjórum mánuðum síðar tók hann við embætti forsætisráðherra.

Cameron hefur setið undir þrýstingi í Bretlandi eftir að Panama-skjólinn leiddu í ljós að faðir hans heitinn, Ian, hafi stofnað félag á Bahama-eyjum, Blairmore Holdings inc., á níunda áratug síðustu aldar sem gerðu honum kleift að forðast skattgreiðslur á Bretlandseyjum.

Þangað til nú hefur Cameron farið undan í flæmingi vegna málsins og svarað fjölmiðlum óljóst. Cameron reyndi í byrjun að halda því fram að sjóðurinn væri einkamál en sagði síðan að hann ætti enga aflandsreikninga og hefði ekki hagnast á slíku fyrirkomulagi.

Sagði Cameron að hlutirnir hefðu verið keyptir fyrir 12,5 þúsund pund og seldir fyrir 30 þúsund pund. Forsætisráðherrann ítrekaði að hagnaður vegna félagsins hafi ávallt verið gefinn upp til skatts.






Tengdar fréttir

Cameron í kröppum dansi út af Panamaskjölunum

David Cameron forsætisráðherra Bretlands er í vandræðum vegna Panamaskjalanna eins og fleiri stjórnmálamenn og fyrirmenni. Skjölin leiða í ljós að faðir hans heitinn, Ian Cameron, kom upp aflandsreikningum sem gerðu honum kleift að forðast skattgreiðslur á Bretlandseyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×