Erlent

FBI kemst inn í síma fjöldamorðingja

Bjarki Ármannsson skrifar
Baráttu Apple og FBI fyrir dómstólum er lokið í bili.
Baráttu Apple og FBI fyrir dómstólum er lokið í bili. Vísir/Getty
Yfirvöld í Bandaríkjunum greindu í dag frá því að með hjálp þriðja aðila hefði þeim tekist að opna iPhone-síma annars árásarmannanna sem skutu til bana fjórtán almenna borgara í San Bernardino í Kalíforníu í desember síðastliðnum. Þannig lýkur deilu þeirra við framleiðandann Apple, sem neitaði að opna símann að beiðni bandarísku alríkislögreglunnar (FBI).

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur fallið frá kröfu sinni sem lögð var fram fyrir dómstóla í Kalíforníu um að Apple yrði skylt að opna símann. Málið vakti mikla fjölmiðlaathygli en Apple neitaði meðal annars að opna símann á þeim grundvelli að halla myndi á friðhelgi einkalífsins.

Í tilkynningu frá ríkissaksóknara segir að með nýtilkominni aðstoð þriðja aðila sé yfirvöldum nú kleift að nálgast upplýsingar á símanum án hjálpar Apple og án nokkurrar hættu á að upplýsingar af símanum þurrkist út. Einungis þess vegna sé fallið frá kröfunni.

Ekki kemur fram í tilkynningunni með hvaða hætti alríkislögreglan getur nú komist í símann, né hvaða upplýsingar er að finna í símanum sem gætu hjálpað til við rannsókn á árásinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×