Erlent

Afhöfðaði þriggja ára stúlku á lestarstöð

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Vitni að árásinni gengu í skrokk á Wang áður en hann var handtekinn.
Vitni að árásinni gengu í skrokk á Wang áður en hann var handtekinn.
Taívanskur karlmaður hefur verið handtekinn grunaður um að hafa afhöfðað þriggja ára stúlku á lestarstöð í höfuðborginni Taipei. Stúlkan beið þar eftir lest ásamt móður sinni þegar maðurinn réðst á þær með fyrrgreindum afleiðingum. Fórnarlambið og morðinginn þekktust ekki og var hún myrt algerlega af handahófi.

Í yfirlýsingu frá lögregluyfirvöldum kemur fram að maðurinn, sem heitir Wang, hafi ráðist á stúlkuna. Móðir hennar hafi reynt að verja hana en maðurinn ýtt henni frá áður en hann skar höfuð barnsins af með eldhúshníf. Í frétt Sky kemur fram að stúlkan hafi látist á staðnum.

Almenningur á staðnum réðst að árásarmanninum og beitti hann ofbeldi áður en lögregla skakkaði leikinn. Wang hafði áður verið handtekinn vegna smáglæpa sem tengjast fíkniefnum. Hann var atvinnulaus og hafði búið heima hjá foreldrum sínum. Talið er víst að hann eigi við geðræna erfiðleika að stríða.

Öryggisgæsla í borginni hefur verið aukin til að koma í veg fyrir svipuð tilvik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×