Erlent

Leita að braki og farþegum úr rússnesku flugvélinni

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Blóm lögð við myndir af fórnarlömbum slyssins.
Blóm lögð við myndir af fórnarlömbum slyssins. Vísir/EPA
Rússnesk yfirvöld framkvæma nú víðtæka leit að farþegum sem fórust með rússnesku herþotunni sem hrapaði í Svartahaf á jóladag. Vélin var á leiðinni til Sýrlands á jóladag en 92 fórust með vélinni. Meðal farþega voru allir meðlimir í söngkór rússneska hersins og fjöldi rússneskra herfréttamanna. Guardian greinir frá.

Rússnesk yfirvöld telja nú að ekki hafi verið um hryðjuverkaárás að ræða. Þrátt fyrir að sá möguleiki hafi verið útilokaður er enn óljóst hvað nákvæmlega grandaði vélinni en eru yfirvöld með til skoðunar hvort það hafi verið mistök flugmanna, vélarbilun, lélegt eldsneyti eða ógreindur hlutur í vélarrúmi flugvélarinnar.

Meira en 3000 manns hafa unnið nótt við nýtan dag síðan slysið varð við að finna farþega og brak úr vélinni, auk svarta kassans svokallaða sem inniheldur upplýsingar um hvað átti sér stað í flugstjórnarklefanum og getur því gefið vísbendingar um hvað gerðist. 11 lík hafa þegar fundist. Við leitina eru notaðir 39 bátar ásamt flugvélum, þyrlum og drónum.

Mikill fjöldi fólks hefur minnst fórnarlamba slyssins í Rússlandi og hafa blóm verið lögð við minnismerki rússneska hersins víðsvegar í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×