„Það vill enginn hafa það á samviskunni að gera jafnvel illt verra,“ segir Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, um úrræði stjórnvalda til systranna. Verkalýðsfélögin hafa skorið upp herör gegn misneytingu á starfsfólki og þekking þeirra á vinnumansali hefur aukist.

IceWear bauð öllum brotaþolunum vinnu og systurnar frá Srí Lanka eru þær einu sem ekki gátu fengið atvinnuleyfi hérlendis þar sem þær eru ekki EES-borgarar.
Konunum tveimur stóð til boða dvalarleyfi á grundvelli gruns um mansal en samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga er ekki möguleiki á að sækja um atvinnuleyfi á grundvelli þess. Því sótti Kristrún aðallega um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þá er mögulegt að sækja um atvinnuleyfi.
Kristrún segir einnig að hún hafi ekki ætlast til þess að Útlendingastofnun tæki tímamótaákvörðun í málinu. „Þess vegna fór ég beint til innanríkisráðherra, til að beita þrýstingi og vonaðist til að þeim yrði veitt mannúðarleyfi vegna skipunar að ofan, en sú skipun kom aldrei,“ segir Kristrún.
„Þetta er pólitísk ákvörðun sem þarf að taka um það hvernig dvalarleyfi á að veita þeim sem eru fórnarlömb mansals. Ekki ákvörðun sem forstöðumaður stofnunar sem afgreiðir leyfin á að taka,“ segir Kristrún.
Konurnar fara ekki aftur til Srí Lanka, þær eru með dvalarleyfi í öðru Evrópulandi og fóru þangað að sögn Kristrúnar. „Mjög líklega hafa þær farið aftur í hendurnar á þeim sem sendu þær hingað.“