Gareth Southgate fær ágætis laun fyrir að hlaupa í skarðið fyrir Sam Allardyce sem þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu.
Allardyce hætti sem landsliðsþjálfari eftir aðeins einn leik og 67 daga í starfi og enska sambandið leitaði til þjálfara 21 árs landsliðsins enda lítill tími til stefnu.
The Times segir frá því að Gareth Southgate muni fá 500 þúsund í pund fyrir þessa tvo mánuði sem gera 73 milljónir íslenskra króna. Það eru ekki slæm laun fyrir tveggja mánaða starf.
Southgate fékk einmitt þessa upphæð í árslaun sem þjálfari 21 árs landsliðsins en hann gaf það út, þegar enska sambandið var að leita að eftirmanni Roy Hodgson, að hann hefði ekki áhuga á starfinu.
Enska sambandið ætlaði að borga Sam Allardyce þrjár milljónir punda í árslaun eða 435 milljónir íslenskra króna. Stjórn sambandsins tók þá ákvörðun samkvæmt heimildum The Times að Southgate fengi hlutfallslega sömu upphæð fyrir að stýra liðinu í þennan stutta tíma.
Blaðamaður The Times telur einnig að Southgate eigi jafnframt góða möguleika á því að tryggja sér starfið til frambúðar gangi enska liðinu vel undir hans stjórn.
Leikirnir þrír í undankeppni HM 2018 þar sem Gareth Southgate stýrir enska landsliðinu eru á móti Möltu, Slóveníu og Skotlandi auk vináttulandsleiks á móti Spáni.
