Enski boltinn

Enskur fótboltamarkvörður í keppni við Hörð Axel?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Rice og Hörður Axel Vilhjálmsson.
Martin Rice og Hörður Axel Vilhjálmsson. Vísir/Getty
Enski fótboltamaðurinn Martin Rice og íslenski körfuboltamaðurinn Hörður Axel Vilhjálmsson eiga eitt sameiginlegt. Þeir eru alltaf að ganga til liðs við sama félagið aftur og aftur.

Martin Rice var í gær að ganga til liðs við Truro City í fjórða sinn á ferlinum. Hörður Axel Vilhjálmsson er kominn í Keflavík í þriðja sinn á þessu ári og spilar með liðinu á móti Haukum í Domino´s deild karla í kvöld.

Hörður Axel samdi við Keflavík í sumar en fór tvisvar út í atvinnumennsku nú síðast til Belgíu. Hann er hinsvegar kominn heim og spilar aftur í Keflavíkurbúningnum á Ásvöllum í kvöld.

Hörður Axel kom fyrst til Keflavíkur frá Njarðvík fyrir 2008-2009 tímabilið og spilaði með liðinu í þrjú tímabil áður en hann fór út í atvinnumennsku til Þýskalands.

Hörður Axel spilaði sem atvinnumaður í Þýskalandi,  á Spáni, í Grikklandi og í Tékklandi  frá 2011 til 2015 en gerði langan samning við Keflavík í sumar. Hann hafði alltaf möguleikann á því að fara út ef hann fengi tilboð og það hefur hann gert tvívegis í haust, fyrst til Grikklands og svo til Belgíu.

Þetta gekk ekki upp á hvorugum staðnum og því mun Hörður Axel spila aftur með Keflvíkingum í Domino´s deildinni sem er heldur betur flottur liðstyrkur fyrir þá.

Martin Rice er þrítugur markvörður sem er nú kominn „heim“ til Truro City en hann yfirgaf félagið síðast í maí. BBC segir frá því að hann sé alltaf að koma aftur og aftur til félagsins.

Rice kom fyrst til Truro City á láni frá Torquay sumarið 2008 en fór síðan til félagsins eftir að fyrrnefndur samningur rann út sumarið 2009.

Martin Rice var hjá Truro City til ársins 2011 þegar hann fór aftur til Torquay United. Hann var síðan í marki Torquay liðsins frá 2011 til 2015 en snéri síðan aftur til Truro City og spilaði eitt tímabil með liðinu.

Það leit út fyrir að hann væri farinn frá Truro City í síðasta skiptið í sumar en hlutirnir geta oft þróast með sérstækum hætti og nú er kappinn mættur aftur á Gosport Borough, heimavöll Truro City.

Rice hefur alls spilað 169 leiki fyrir Truro City og náði því meira að segja að skora eitt mark fyrir félagið þegar hann tók vítaspyrnu í febrúar 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×