Sama hvort strákarnir okkar vinna Frakka eða ekki í átta liða úrslitum EM 2016 í fótbolta á Stade de France í kvöld verður dagurinn alltaf eftirminnilegur fyrir eitt par í stúkunni.
Fyrir alla leiki er kossamyndavél sett í gang til að keyra stemningu í mannskapinn og má þá sjá pör smella kossi á hvert annað fyrir framan tugþúsundir manna.
Einn Íslendingur í stúkunni á Stade de France í kvöld ákvað að ganga aðeins lengra. Hann var greinilega búinn að tala við góða menn og passa upp á að hann fengi myndavélina á sig síðastur.
Þessi ágæti maður gerði gott betur en að kyssa konuna sína heldur reif hann upp hring, fór á skeljarnar og bað ástkonu sína um að giftast sér. Og hún sagði já!
Geggjuð stund á Stade de France.
Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).

