Fótbolti

Þessir níu leikmenn í íslenska liðinu mega ekki fá gult spjald í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ari Freyr Skúlason var ekki sáttur við sitt gula spjald.
Ari Freyr Skúlason var ekki sáttur við sitt gula spjald. Vísir/Getty
Íslenska fótboltalandsliðið er mætt á Stade de France í París þar sem liðið spilar við heimamenn um sæti í undanúrslitum á Evrópumótinu í Frakklandi.

Níu leikmenn íslenska liðsins mega ekki fá gult spjald í kvöld því það myndi þýða leikbann í undanúrslitunum ef íslenska liðið kemst í gegnum franska liðið.

Leikmennirnir sem mega alls ekki fá spjald í kvöld eru þeir Kári Árnason, Birkir Bjarnason, Jóhann Berg Guðmundsson, Aron Einar Gunnarsson, Hannes Þór Halldórsson, Birkir Már Sævarsson, Kolbeinn Sigþórsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Ari Freyr Skúlason.

Það eru því bara tveir leikmenn í byrjunarliði íslenska liðsins í kvöld sem mega fá gult spjald en það eru þeir Ragnar Sigurðsson og Jón Daði Böðvarsson.

Það er á móti aðeins tveir leikmenn í franska landsliðinu sem fara í bann fá þeir gult spjald í leiknum en það eru Arsenal leikmennirnir Laurent Koscielny og Olivier Giroud. Þarna er mikill munur á en tveir leikmenn franska liðsins taka reyndar út leikbann í þessum leik eða þeir N'Golo Kanté og Adil Rami.

Aðeins einn leikmaður íslenska liðsins hefur tekið út leikbann á EM í Frakklandi en Alfreð Finnbogason fékk gult spjald í tveimur fyrstu leikjunum og var í banni í leiknum á móti Austurríki sem var lokaleikur riðilsins.



Strákanir hafa spilað svona lengi með spjald á bakinu:

Birkir Bjarnason - fékk spjald á móti Portúgal (305 mínútur með spjald)

Jóhann Berg Guðmundsson - fékk spjald á móti Ungverjalandi (224 mínútur með spjald)

Birkir Már Sævarsson - fékk spjald á móti Ungverjalandi  (193 mínútur með spjald)

Ari Freyr Skúlason  - fékk spjald á móti Austurríki (144 mínútur með spjald)

Kolbeinn Sigþórsson - fékk spjald á móti Austurríki (105 mínútur með spjald)

Kári Árnason - fékk spjald á móti Austurríki (102 mínútur með spjald)

Hannes Þór Halldórsson - fékk spjald á móti Austurríki (98 mínútur með spjald)

Gylfi Þór Sigurðsson - fékk spjald á móti Englandi (52 mínútur með spjald)

Aron Einar Gunnarsson - fékk spjald á móti Englandi (25 mínútur með spjald)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×