Hjörtur Hermannsson og Guðlaugur Victor Pálsson léku allan leikinn með liðum sínum í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Guðlaugur Victor og félagar hans í Esbjerg mættu Nordsjælland á heimavelli. Fyrir leikinn var Esbjerg í neðsta sæti deildarinnar og hafði aðeins unnið tvo leiki í Superligaen. Gestirnir komust yfir í fyrri hálfleik en Robin Söder jafnaði fyrir Esbjerg í upphafi síðari hálfleiks.
Nordsjælland komst aftur yfir á 79.mínútu og allt stefni í sigur gestanna. Brent McGrath jafnaði hins vegar metin fyrir Esbjerg á 90.mínútu og tryggði þeim mikilvægt stig í botnbaráttunni.
Það gengur öllu betur hjá Bröndby, liði Hjartar Hermannssonar. Þeir mættu liði Silkeborg og gátu með sigri skellt sér á nýjan leik upp í 2.sætið og þar með uppfyrir Randers, lið Ólafs Kristjánssonar og Hannesar Þórs Halldórssonar.
Hjörtur var á sínum stað í miðri vörn heimamanna í 3-1 sigri þar sem Bröndby tryggði sér sigurinn með tveimur mörkum á tveggja mínútna kafla um miðjan síðari hálfleik.
Bröndby því áfram í 2.sætinu en þeir eru 8 stigum á eftir FC Kaupmannahöfn sem eru efstir.
