Innlent

Bjarni segir VMA ekki hafa staðið við tvíhliða samkomulag

Anton Egilsson skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Vísir/Anton Brink
Bjarni Benediktsson segir Verkmenntaskólann á Akureyri ekki hafa staðið við tvíhliða samkomulag sem það gerði við Mennta- og menningamálaráðuneytið um dreifingu 24 milljón króna skuldar við ríkissjóð.

Þetta sagði Bjarni í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag en Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, krafði Bjarna Benediktsson svara um stöðu Verkmenntaskólans. 

Búið að loka á greiðslur til skólans

Greint var frá því á Vísi í dag að krísufundur hafi verið haldinn með starfsmönnum skólans í morgun vegna fjárhagsvanda hans.

Í bréfi sem Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, sendi foreldrum nemenda í skólanum í dag segir hún að búið sé að loka á greiðslur til skólans, annarra en til launa og húsaleigu, þar sem skólinn sé í skuld við ríkissjóð.

Þá segist hún hafa verið í samskiptum við aðila í mennta- og menningamálaráðuneytinu og verið sé að leita leiða til að skólinn gæti staðið skuldbindingar sínar hvorutveggja gagnvart nemendum og ríkissjóði.

Stóðu ekki við sinn hluta samkomulagsins

Bjarkey spurði Bjarna hvort samkomulag sem skólinn gerði við menntamálaráðherra um dreifingu á 24 milljóna skuld skólans við ríkissjóð væri ekki raunverulegt. Stóð til að dreifa skuldinni niður á næstu tvö til þrjú ár.

Svaraði Bjarni svo að segja mætti að gert hafi verið tvíhliða samkomulag milli skólans og menntamálaráðuneytisins þar sem gengið var út frá ákveðnum forsendum um rekstrarhorfur á árinu 2016.

„Af hálfu skólans hefur ekki verið staðið við það sem um var rætt samkvæmt samkomulaginu. Rekstrarstaða skólans er verri en hún átti að vera samkvæmt viðkomandi samkomulagi. Aðalástæðan og eina ástæðan fyrir því að sú staða er komin upp að nýju sem menn reyndu að forða fyrir örfáum mánuðum er sú að skólinn hefur ekki getað staðið við sinn hluta samkomulagsins.”

Framlag á hvern nemanda hækkað töluvert

Þá bætti Bjarni við að núverandi ríkisstjórn hafi á starfstíma sínum aukið framlag á hvern framhaldsskólanemanda úr 900 þúsund króna í 1,1 milljón króna. Framlag á hvern nemenda komi til með að hækka ennþá meira ef fram heldur sem horfir.

„Ef fram heldur sem horfir og samkvæmt þeirri áætlun í ríkisfjármálum sem nú liggur fyrir, samþykkt af Alþingi, munum við á komandi árum gera svo miklum mun betur að framlögin stefna í að vera um 1,6 milljónir á nemanda undir lok áætlunartímabilsins.”


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×