Viðskipti innlent

Hóteluppbygging gæti haldið aftur af íbúðabyggingum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ef erfitt verður að fá erlent vinnuafl gæti hóteluppbygging haldið aftur af íbúðabyggingum.
Ef erfitt verður að fá erlent vinnuafl gæti hóteluppbygging haldið aftur af íbúðabyggingum. Vísir/Andri Marinó
Hóteluppbygging hefur hingað til haft lítil áhrif á íbúðabyggingu en gæti komið til með að gera það á næstu árum. Þetta er mat Konráðs S. Guðjónssonar, sérfræðings hjá greiningardeild Arion banka. Hann heldur erindi um efnið á Fasteigna­ráðstefnunni 2016 sem fer fram í Hörpu á morgun.

„Það er klárlega of lítil íbúðafjárfesting búin að vera núna undanfarið, það er komin uppsöfnuð þörf. Það er ýmislegt sem spilar þar inn, ég er ekki svo viss um að það sé hóteluppbygging eins og hún hefur verið nú þegar. Það hefur svo sem verið einhver slaki á byggingamarkaðnum, hann hefur verið að ná sér eftir efnahagshrunið,“ segir Konráð. „Fjöldi annarra þátta en hóteluppbygging spilar þar inn í og ýmsar kenningar eru um af hverju ekki sé meiri íbúðafjárfesting. Hótelbygging hefur einhver áhrif, hversu mikið er erfitt að segja.“

Eins og staðan er núna varðandi uppbyggingu hótela segir Konráð að fólk sé of svartsýnt að telja að hótel séu að drepa niður alla íbúðauppbyggingu. „Ef þú setur þessi hótelherbergi í samhengi við íbúðafjölda þá er þetta ekki svo gríðarlegt miðað við hvað þyrfti að byggja mikið af íbúðum til að eiga við fólksfjölgun. Bygging sjö hundruð hótelherbergja í fyrra er eins og að byggja innan við fimm hundruð íbúðir," segir Konráð.

Konráð Guðjónsson
„Það sem maður aðallega veltir fyrir sér er þegar maður lítur fram á veginn og þar er aukin uppsöfnuð þörf fyrir íbúðir og fleiri hótel að bætast við áætlun. Það eru hugmyndir um að fleiri hótel bætist við í ár en í fyrra. Þegar kominn er meiri þrýstingur á verktakabransann þá gæti þetta farið að hafa áhrif,“ segir Konráð.

„Þetta veltur allt á hvernig verktakageirinn og byggingabransinn bregðast við því. Nú er hann í fullri nýtingu. Það er spurning hvernig hann bregst við því að þurfa að flytja inn vinnuafl og annað. Ef það næst að flytja inn vinnuafl, þá mun hóteluppbygging ekki hafa áhrif á byggingu íbúða. En ef það tekst ekki þá getur það þrýst á. Það er ekki ástæða til svartsýni en fólk þarf að velta þessu fyrir sér,“ segir Konráð.

Annað sem spilar inn í er hugsanleg mettun á hótelmarkaði. Í nýlegum Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka kemur fram að miðað við þá uppbyggingu sem er á teikniborðinu, og hversu hratt bæst hefur við áform um hótelbyggingu á síðustu mánuðum, telur greiningardeildin rétt að staldra aðeins við. Enn sé þörf fyrir fleiri hótel og gistirými, en það sem nú sé á teikniborðinu virðist fara langt með að fullnægja þörf á hótelrýmum ef spá um tvær milljónir ferðamanna innan þriggja ára gengur eftir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×