Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu LÍN. Þar sést að heildarskuldir tuttugu hæstu lánþeganna nema 688,9 milljónum króna. Hópurinn hefur samtals borgað til baka 18,7 milljónir á síðustu níu árum en LÍN býst við því að fá 91,9 milljónir króna af skuldunum.

Allir á listanum hafa verið við nám erlendis og tólf manns hafa fengið lán fyrir doktorsnámi. Sem dæmi má nefna að sá sem er í þriðja sæti á listanum yfir hæstu skuldarana lauk meistaranámi árið 2003. Viðkomandi skuldar LÍN 40 milljón krónur en hefur ekki borgað krónu til baka á síðastliðnum níu árum. LÍN býst við því að alls fáist 1,9 milljón krónur upp í skuldina.
„Við göngum ekki á ábyrgðarmenn nema lánið fari í vanskil. Það er ekki farið í vanskil ef hann hefur fengið undanþágu frá greiðslu, svo sem vegna atvinnuleysis, veikinda eða hefur verið í lánshæfu námi,“ segir Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri LÍN. Hún segir að þó hún hafi ekki skoðað hvern einstakling fyrir sig á bak við þessar tölur sé líklega um atvinnuleysi eða veikindi að ræða hjá þessum átta sem ekki hafa greitt krónu til baka síðastliðin níu ár. Í nýju LÍN frumvarpi sem menntamálaráðherra hefur mælt fyrir er aðeins hægt að fá undanþágu vegna atvinnuleysis eða veikinda í þrjú ár.

Það sé orðum aukið að þetta fólk hafi fundið glufu á kerfinu. „Hins vegar er í kerfinu hvati til að vera sem lengst í námi og taka sem mest lán þegar þú ert á annað borð kominn með hátt lán. Ef þú ert kominn með lán upp á tíu til fimmtán milljónir þá borgar þú ekki meira af láninu þó þú skuldir mikið.“