Skoðun

Hugurinn ber þig víst bara hálfa leið

Elmar Hallgríms Hallgrímsson skrifar
Einn af mínum sigrum á síðasta ári var að sannfæra 7 ára gamlan son minn að byrja að æfa Taekwondo. Þetta var alls ekki auðveld barátta, nema síður sé. Öllu var til tjaldið í þessum samningaviðræðum og loks féllst hann á að prófa. Að sjálfsögðu var gengið alla leið strax í upphafi og allar viðeigandi græjur keyptar fyrir drenginn. Mér fannst þetta afskaplega merkilegt og þar spilar ábyggilega stóra rullu að ferill föðursins í karate fyrir alltof mörgum árum síðan var afar stuttur, eða um átta vikur. Ég sá því mína drauma rætast í stráknum þar sem hann sveif um gólfin hjá Ármanni í hvítum galla. 

Eitt af því sem mikilvægt er að æfa í Taekwondo er að sparka og við feðgarnir tókum það alvarlega, allavega pabbinn. Eftir að hafa fylgst með stráknum mínum taka nokkur spörk mundi ég eftir því að þetta hefði einmitt verið minn styrkleiki á mínum stutta ferli í karate. Það var allavega þannig í minningunni og auðvitað hefur hún alltaf rétt fyrir sér. Ég hugsaði til þeirra stunda þegar ég var í hvíta gallanum mínum með fótinn þráðbeinan út í loftið eftir nákvæmt spark.  

Ég ákvað því að sýna stráknum mínum gamalkunna takta og taka eitt af mínum frægu spörkum. Ég fann það þó strax eftir fyrsta sparkið sem var nú ekki alveg eins þráðbeint og öflugt og ég hélt að það yrði, að eitthvað hafi gefið sig og tognun staðreynd. Auðvitað er ástæðan sú að ég hitaði ekki nóg upp eða þá að ég var hreinlega illa fyrirkallaður, enda hef ég margoft framkvæmt svona spörk í huganum síðustu misserin þegar ég hef setið á pöllunum og fylgst með stráknum mínum fara á kostum. 

Þar sem ég lá upp í sófa með klaka á viðkvæmum stað, nýbúinn að bera á mig nýjasta Age Fitness kremið sem á víst að koma í veg fyrir alla hrukkumyndun, hugsaði ég með mér, já ég er enn alveg með þetta, það er klárt að aldurinn hefur engin áhrif á mig. Næst á dagskrá er að finna gamla skærgula þrönga hlýrabolinn sem ég notaði stanslaust þegar ég var 16 ára og skella mér í ræktina, enda hlýtur hann að smellpassa á mig þar sem ég hef ekkert breyst á þessum örfáu árum síðan þá, allavega ekki í minningunni. 

 




Skoðun

Sjá meira


×