Erlent

Fujimori viðurkennir ósigur gegn Kuczhinski

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Afar litlu munaði á Fujimori og Kuczynski þegar talið var úr kjörkössunum.
Afar litlu munaði á Fujimori og Kuczynski þegar talið var úr kjörkössunum. vísir/getty/getty
Keiko Fujimori hefur viðurkennt ósigur í síðari umferð forsetakosninganna í Perú. Andstæðingur hennar, Pedro Pabo Kuczynski, er því nýr forseti landsins. Í ræðu sinni sagði Fujimori að stjórnarandstaðan yrði vel á verði undir hennar forystu. Fjallað er um kosningarnar á vef BBC.

Faðir Keiko er Alberto Fujimori en hann var forseti landsins frá 1990 til 2000. Hann afplánar nú 25 ára fangelsisrefsingu eftir að hafa verið dæmdur fyrir spillingu og að brjóta gegn mannréttindum þegna í Perú. Hann afhenti meðal annars yfirmanni leyniþjónustu sinnar fimmtán milljónir dollara úr ríkissjóði landsins án þess að hafa heimild til þess.

„Andstæðingur minn stóð uppi sem sigurvegar með því að ala á hatri,“ sagði Fujimori. Kuczynski, en foreldrar hans flúðu til Perú frá Sviss og Þýskalandi frá nasistum fyrir stríð, sagði ítrekað að næði Fujimori kosningu yrðu stjórnarhættir hennar áþekkir því sem þekktist hjá föður hennar.

Kuczynski var forsætisráðherra landsins á árunum 2005-06 en starfaði áður á Wall Street. Hann er hagfræðingur að mennt og hyggst nota reynslu sína og þekkingu til að bæta efnahag landsins.

Fujimori hafði framan af nokkuð örugga forystu en Kuczynski sótti á undir lok baráttunnar. Þegar upp var staðið hafði nýi forsetinn hlotið 50,1 prósent atkvæða en Fujimori 50,1 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×