Skoðun

LÍN – jafnræði ábyrgðarmanna

Hulda Rós Rúriksdóttir skrifar
Undanfarið hafa verið umræður í fjölmiðlum um tillögur að breytingum á reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Ekki er ætlunin að fjalla sérstaklega um þær tillögur í þessari grein.

Undirrituð var nemi í háskólanámi á árunum 1984-1991 og tók á þeim tíma námslán hjá lánasjóðnum og fékk lán eftir þeim reglum sem þá giltu en þá var undirritað skuldabréf einu sinni á ári og þurfti að fá ábyrgðarmann á hvert skuldabréf. Aðallega var þá leitað til foreldra og systkina til að „skrifa upp á“. Að námi loknu hófust svo endurgreiðslur á láninu. Undirrituð, sem nú er 52 ára gömul, gerir ráð fyrir að ljúka endurgreiðslum um 55 ára aldur. Þetta er allt í góðu lagi og sjálfsagt mál að endurgreiða slíkt námslán og í raun er það gott að geta endurgreitt hverja krónu þannig að ekki komi til þess að ábyrgðarmennirnir sem eru á lánunum þurfi að greiða nokkurn hluta. Ég ætla hér að ræða jafnræði við greiðslur til námsmanna og stöðu ábyrgðarmanna.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 622/2011 var fjallað um stöðu ábyrgðarmanns. Þar kemur fram að skylda ábyrgðarmanns sem skrifað hafði upp á endurnýjun ábyrgðar á námsláni á árinu 1985, var einungis gild í 20 ár en samkvæmt þeim reglum sem giltu á þeim tíma féll ábyrgðin niður að 20 árum liðnum.

Í öðrum dómi Hæstaréttar í máli nr. 229/2015 var um að ræða námslán sem tekin voru á árunum 1983–1987. Þar var ábyrgðarmaður námslánsins látinn og gengið að erfingjum dánarbús ábyrgðarmanns vegna vanskila lántaka, en erfingjar höfðu tekið ábyrgð á skuldum hins látna við arfsskipti eftir hann. Niðurstaða dómsins var sú að erfingjar væru ábyrgir gagnvart lánasjóðnum. Á þeim tíma sem umrædd lán voru tekin hafði reglan um 20 ára ábyrgðartíma sem kom til skoðunar í fyrrnefnda málinu, verið felld úr gildi.

Öll lán sem veitt voru hjá lánasjóðnum til skólaársins 2008-2009 voru með ábyrgðarmönnum, þ.e. námsmaður þurfti að fá ábyrgðarmann á lán sín. Frá vetrinum 2009-2010 hafa aðrar reglur gilt um ábyrgðarmenn en samkvæmt reglum sem koma fram á heimasíðu lánasjóðsins gilda þær reglur nú að ef lántaki er á vanskilaskrá þurfi hann að fá ábyrgðarmann á lán hans en hámarksfjárhæð ábyrgðar er 7 milljónir. Í því felst að ábyrgðarmaður greiðir ekki hærri fjárhæð, komi til þess að hann þurfi að greiða samkvæmt ábyrgð, vegna vanskila lántaka.

Undirrituð hefur um langt árabil haft aðkomu að skiptum fjölda dánarbúa. Alltaf af og til kemur upp að hinn látni var ábyrgðarmaður á námsláni. Lengi var það svo að lánasjóðurinn hafði þá reglu að ganga ekki að erfingjum dánarbús látins ábyrgðarmanns ef greiðsla láns fór í vanskil. Fyrir örfáum árum var greinilega tekin sú ákvörðun hjá lánasjóðnum að gera breytingu á þessari vinnureglu og taka þess í stað upp þá reglu að innheimta gjaldfallin námslán hjá erfingjum látins ábyrgðarmanns, þ.e. í þeim tilvikum þegar erfingjar hafa tekið ábyrgð á skuldum hins látna.

Að mati undirritaðrar er nú komið að því að taka verði upp allar reglur um endurgreiðslu námslána við breytingu á LÍN reglum. Að reyna þannig að nálgast jafnræði meðal þeirra sem hafa tekið námslán í gegnum tíðina. Nú, þegar umræðan snýst um það hvort ekki sé rétt að veita styrki til náms sem ekki eigi að endurgreiðast hlýtur að skapast rými til að endurskoða reglur um stöðu ábyrgðarmanna. Þær reglur sem ég hef rakið hér að framan um ábyrgðarmenn og framkvæmd þeirra, hljóta að kalla á það að ráðherra og Alþingi beiti sér fyrir því að reyna að nálgast jafnræði og jafna stöðu þeirra einstaklinga sem hafa gerst ábyrgðarmenn barna sinna, systkina eða ættmenna. Ég skora á þessa aðila að taka þessar reglur til skoðunar enda gefst nú kjörið tækifæri til að færa þær í átt til jafnræðis.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×