Innlent

Engar aðgerðir fyrirhugaðar gegn fjölgun kanína í borginni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fjöldi kanína er í Elliðaárdalnum og eru skiptar skoðanir um það hvort fækka eigi þeim.
Fjöldi kanína er í Elliðaárdalnum og eru skiptar skoðanir um það hvort fækka eigi þeim. vísir/anton
„Því er fljótsvarað. Það hefur ekki verið neitt slíkt,“ segir Guðmundur Þorbjörn Björnsson, rekstrarstjóri meindýravarna hjá Reykjavíkurborg, spurður um það hvaða aðgerða hafi verið gripið til í því skyni að fækka kanínum í höfuðborginni.

Í Fréttablaðinu í gær var greint frá slysi sem Hlöðver Bernharður Jökuls­son sjúkraþjálfari lenti í þegar hann hjólaði á kanínu í Elliðaárdalnum. Hlöðver datt af hjólinu með þeim afleiðingum að fimm rifbein brotnuðu, lunga féll saman og annað herðablaðið fór í tvennt. Hlöðver kallar eftir aðgerðum borgarinnar til að fækka kanínunum.

Guðmundur Þorbjörn segir að eina fækkunin sem eigi sér stað sé þegar ökumenn keyri á kanínurnar við Stekkjarbakka. „Það er þó nokkuð um það.“

Guðmundur Þorbjörn segir kanínur vera friðaðar en Reykjavíkurborg hafi fengið undanþágu til að taka á málum ef borgarbúar kvarta. „Það hefur komið fyrir að þær hafa verið í görðum hjá fólki og svona og þá höfum við tekið á stöku dýrum.“

Guðmundur Þorbjörn segist vita til þess að það hafi komið til tals að grípa til aðgerða varðandi kanínurnar. Það hafi vakið hörð viðbrögð þegar þær hugmyndir voru reifaðar í fjölmiðlum.

„Ég veit ekki hvort borgaryfirvöld leggja í það,“ segir hann. Hann segist sjálfur ekki fara í Elliðaárdalinn til þess að lóga kanínum. „Alveg sama hversu margir myndu kvarta. Ef farið verður í aðgerðir þar þá verður það bara að vera ákveðið á háum stöðum,“ segir Guðmundur.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Margbrotinn eftir árekstur við kanínu

Hlöðver Jökulsson slasaðist illa eftir að hann hjólaði á kanínu í Elliðaárdalnum. Lungað féll saman og bein brotnuðu. Hann brýnir borgina til verka gegn fjölgun kanína sem hann segir að viss um að hafa valdið fleri slysum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×