Erlent

Pútín vill ekki hitta Frakklandsforseta

Guðsteinn Bjarnason skrifar
François Hollande og Vladimír Pútín, þar sem þeir hittust í Moskvu í nóvember á síðasta ári.
François Hollande og Vladimír Pútín, þar sem þeir hittust í Moskvu í nóvember á síðasta ári. vísir/afp
Vladimír Pútin, forseti Rússlands, hefur afboðað heimsókn sína til Frakklands, þar sem til stóð að hann myndi eiga fund með François Hollande forseta um ástandið í borginni Aleppo í Sýrlandi.

Forsagan er sú að á laugardaginn beittu Rússar neitunarvaldi sínu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, þegar greidd voru atkvæði um ályktun um að stöðva ætti án tafar allar sprengjuárásir á Aleppo í Sýrlandi.Kínverjar, sem einnig hafa neitunarvald í ráðinu og hafa rétt eins og Rússar oft beitt því gegn hvers kyns íhlutunum í málefni annarra landa, beittu þessu valdi sínu ekki að þessu sinni heldur sátu hjá. Einungis Venesúela stóð með Rússum og greiddi atkvæði gegn ályktuninni.

Hollande tók þessu afar illa og hefur sagt að sennilega væri fundur með Pútín tilgangslaus sem stendur, en þeir áttu að hittast í París í næstu viku. Hollande hefur einnig sagt að vegna þátttöku sinnar í loftárásunum á Aleppo geti Rússar átt yfir höfði sér málaferli vegna stríðsglæpa.

Fréttin birist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×