Innlent

Margt breyst á kjörtímabilinu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Einungis átján dagar eru eftir af þessu kjörtímabili og verður nýtt Alþingi kosið þann 29. október næstkomandi. Óljóst er hvernig næsta ríkisstjórn landsins verður en ljóst er að margt hefur breyst á líðandi kjörtímabili og margt ekki. Fréttablaðið tók saman ýmsar tölur yfir breytingar í samfélaginu á kjörtímabilinu.

Ljóst er á fjölda flugfarþega í aprílmánuðum áranna 2013 og 2016 að ferðamönnum sem koma til Íslands hefur fjölgað gríðarlega. Nærri tvöfalt fleiri komu til landsins í apríl á þessu ári miðað við apríl 2013 þegar kosið var síðast til Alþingis.

Þá hefur árangur Íslendinga í knattspyrnu vakið heims­athygli. Kvennalandsliðið heldur áfram að raða sér á meðal fremstu þjóða heims en karlalandsliðið hefur tekið miklum framförum og meðal annars spilað á sínu fyrsta stórmóti og komist þar í átta liða úrslit.

Þrátt fyrir að Íslendingar séu fleiri hefur safnaðarbörnum Þjóðkirkjunnar ekki fjölgað í samræmi við það. Þeim hefur fækkað. Þvert á móti eru fleiri sem skráðir eru utan trú- og lífsskoðunarfélaga.

Traust til helstu stofnana hefur lítið breyst. Álíka margir bera traust til Alþingis nú og fyrir kjörtímabilið og sömu sögu er að segja af lögreglunni. Þá hefur atvinnuleysi helmingast og gengi krónu styrkst.

Almennt virðast Íslendingar hamingjusamari nú en árið 2013. Í úttekt Sameinuðu þjóðanna mælist Ísland þriðja hamingjusamasta land heims í ár samanborið við níunda sæti fyrir þremur árum. Þættir sem teknir eru til greina í þeirri úttekt eru meðal annars verg landsframleiðsla, velferð, lífslíkur, einstaklingsfrelsi og traust til stjórnvalda. Umrætt traust mælist hins vegar lítið á meðal Íslendinga og þarf að leita niður í þrettánda sæti til að finna sambærilegar tölur.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×