Innlent

Berbanum gert að yfirgefa gistiskýlið

Þorgeir Helgason skrifar
Gistiskýlið við Bæjarhraun í Hafnarfirði.
Gistiskýlið við Bæjarhraun í Hafnarfirði. vísir/stefán
Hælisleitandanum sem sendur var til baka frá Noregi í síðustu viku var hent út úr gistiskýli á vegum Útlendingastofnunar við Bæjarhraun í Hafnarfirði á laugardag. Þetta staðfestir Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar. Ástæðu brottrekstrarins má rekja til þess að maðurinn, sem er Berbi frá Norður-Afríku, á að hafa brotið húsreglur gistiskýlisins.

Berbanum er gefið að sök að hafa neytt áfengis innan dyra í gistiskýlinu en það er brot á húsreglum. Þegar Fréttablaðið náði tali af Berbanum í gær var hann á biðstofu geðdeildar Landspítalans.

„Ég er kominn aftur á spítalann, ég skráði mig inn á föstudag vegna þess að mig langaði að yfirgefa þennan heim. Ég dvaldi þar eina nótt og fór svo aftur í gistiskýlið. Þegar ég kom í gistiskýlið var mér hent út og sagt að ef ég sneri aftur yrði hringt á lögregluna. Ég er búinn að vera að skera mig og ég þarf hjálp og er þess vegna kominn aftur á spítalann.“

Síðustu nætur hefur Berbinn dvalið á götunni. „Mér líður eins og ég sé rusl í augum þessa fólks,“ segir Berbinn. Hann hefur engar upplýsingar fengið frá Útlendingastofnun um hvort hann verði sendur úr landi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Berbinn sendur aftur til Noregs

Berbískur hælisleitandi sem skaut skjólshúsi yfir vin um miðjan vetur missti húsnæðið því með þessu braut hann húsreglur. Hann var endursendur samdægurs frá Noregi í vikunni en fer þangað aftur eftir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×