Innlent

Langflestir launagreiðendur með færri en fimm starfsmenn á launaskránni

Þorgeir Helgason skrifar
Árelía Eydís Guðmundsdóttir, dósent við Háskóla Íslands.
Árelía Eydís Guðmundsdóttir, dósent við Háskóla Íslands. vísir/anton
„Vinnumarkaðurinn er að breytast með þeim hætti að það eru fleiri sem taka af skarið og stofna fyrirtæki. Við sáum mikinn uppgang í þessu í kjölfars hrunsins en þá þurfti margt fólk að leita sér nýrra tækifæra,“ segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Yfir 70 prósent launagreiðenda reka fyrirtæki með færri en fimm launþega, en þetta kemur fram í nýrri samantekt Hagstofu Íslands sem birt var í gær. Hjá þessum 11.831 fyrirtækjum starfar að meðal­tali rúmlega einn og hálfur starfsmaður.

Árelía segir þessa þróun vera í takt við það sem er að gerast á heimsvísu og þá sérstaklega á Bretlandi og í Bandaríkjunum.

„Þessi þróun er einnig í samræmi við fjölgun starfa í ferðamannaiðnaðinum þar sem fólk er að stofna litlar ferðaskrifstofur eða önnur lítil þjónustufyrirtæki,“ segir Árelía, en í gögnunum má sjá umtalsverðar breytingar á milli ára varðandi fjölda launþega.

Í byggingariðnaði og mannvirkjagerð og í ferðaþjónustu hefur launþegum fjölgað um sextán prósent á árinu en fjöldi starfa í sjávarútvegi, fræðslustarfsemi og í opinberri stjórnsýslu hefur dregist saman. Langstærstur hluti launþega, eða um 56 prósent þeirra, starfa hjá aðeins 309 launagreiðendum. Samtals eru launagreiðendur í dag rúmlega 16 þúsund talsins en 83 prósent þeirra hafa færri en tíu manns í vinnu.

Í tölum Hagstofunnar eru ekki upplýsingar um einyrkja sem eru með rekstur á eigin kennitölu og greiða sjálfum sér laun en slíkt rekstrarform er algengt í byggingariðnaði, landbúnaði, hugverkaiðnaði og í skapandi greinum svo dæmi séu tekin. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×