Lífið

Einlægni ungs Sauðkrækings hefur unnið hug og hjörtu fólks: Kemur út úr skápnum og býður fram hjálp sína

Stefán Árni Pálsson skrifar
Daníel hefur fengið mikil viðbrögð.
Daníel hefur fengið mikil viðbrögð.
„Ég er að opna mig með mínar tilfinningar sem hljóða þannig að ég fæddist aðeins öðruvísi en flestir aðrir,“ segir Daníel Þórarinsson í einlægu myndbandi sem hann deilir á Facebook-síðu sinni. Daníel er búsettur á Sauðárkróki og er jógakennari í myndbandinu kemur hann út úr skápnum og hefur myndbandið vakið mikla athygli og hefur hann fengið mikið hrós fyrir.

„Hvað er að vera öðruvísi? Maður er alltaf að passa sig að falla inn í eitthvað norm, en þetta norm er ekkert rosalega frábært fyrir alla og ekki fyrir mig. Það er búið að vera mikil vinna að reyna falla inn í þetta norm.“

Daníel segist vera kominn á þann stað í sínu lífi að sleppa tökunum og koma hreinlega út úr skápnum.

„Allt mitt líf er ég búinn að reyna að vera einhver annar en ég er. Það sem skiptir mestu máli er að manni líði vel í eigin skinni. Það var einmitt það sem foreldrar mínir, ættingjar og vinir sögðu við mig þegar ég sagði þeim frá þessu fyrir nokkrum vikum síðan. Þetta var ótrúlega auðvelt og ég var búinn að ímynda mér að þetta yrði svo erfitt. Að ég yrði einhver kvöð einhvers annars með mínar tilfinningar, en svo er ekki.“

Hann segist bara vera eins og hann er og geti ekki breytt sér.

„Af hverju ætti maður að breyta sér fyrir einhverja aðra? Því miður hefur fólk ákveðið að fara fyrr úr þessum heimi því það hefur ekki getað borið sínar tilfinningar og mér finnst það rosalega sárt.“

Daníel hvetur fólk sem er með svipaðar tilfinningar og hann að finna styrk sinn og opna sig.

„Núna er ég tilbúinn að hjálpa ykkur. Talið við mig þó að þið þekkið mig ekkert.“

Þegar þessi frétt er skrifuð hafa yfir 17 þúsund manns horft á myndbandið. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×