Ólafur Kristjánsson, nýráðinn þjálfari Randers, vill fá landsliðsmarkvörðinn Hannes Þór Halldórsson til danska liðsins.
Hannes er samningsbundinn hollenska liðinu NEC Nijmegen en hefur leikið sem lánsmaður með Bodø/Glimt í Noregi frá því í mars. Lánssamningur Hannesar við norska liðið rennur út á mánudaginn.
Randers er eitt þeirra liða sem hefur áhuga á landsliðsmarkverðinum en þetta staðfestir Danny Hoekman, íþróttastjóri Nijmegen, í samtali við Tipsbladet í Danmörku.
Sjá einnig: Hannes einn af þeim sem UEFA telur að hafi breytt lífi sínu á EM í Frakklandi
Randers er í markvarðaleit en liðið sækir Midtjylland heim í 1. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar á mánudaginn.
Hannes vakti mikla athygli fyrir frammistöðu sína með íslenska landsliðinu á EM í Frakklandi. Hannes lék hverja einustu mínútu á mótinu en enginn markvörður varði fleiri skot en hann á EM.
Fótbolti