Erlent

Sendu orrustuþotur til varnar Kúrdum

Samúel Karl Ólason skrifar
Bandarískar herþotur á flugi.
Bandarískar herþotur á flugi. Vísir/EPA
Hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna sendu í dag herþotur til móts við flugvélar stjórnarhers Sýrlands. Það var gert eftir að hinir síðarnefndu gerðu loftárásir nærri sveitum Kúrda og bandarískum sérsveitarmönnum sem aðstoða þá við borgina Hassakeh. Talsmaður Pentagon hótaði því að ef slíkt gerðist aftur yrðu flugvélarnar skotnar niður.

Jeff Davis, talsmaður Pentagon, sagði að flugmenn sýrlensku flugvélanna hefðu ekki brugðist við tilraunum hermanna til að reyna að ná tali af þeim.

Hluti borgarinnar sem og nærliggjandi herstöð er í höndum stjórnarhersins og sitja sveitir Kúrda um svæðið.

Reuters fréttaveitan hefur eftir Davis að stjórnarherinn hafi ekki gert loftárásir gegn Kúrdum áður, en búið er að skipa fyrir aukna loftvernd á svæðinu. Þá segir Reuters frá því að fjöldi almennra borgara hafi látið lífið í loftárásunum.

Þegar herþotur Bandaríkjanna komu á vettvang voru þotur stjórnarhersins á leið frá svæðinuDavis segir að samband hafi verið haft við Rússa sem þvertóku fyrir að þeir hefðu gert árásirnar. Rússar voru beðnir mun að koma þeim skilaboðum áleiðis að ef bandarískum hermönnum væri ógnað myndu þotur þeirra bregðast við og verja þá.

Uppfært: Upprunalega stóð að hluti borgarinnar væri í höndum Íslamska ríkisins. Því hefur verið breytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×