Erlent

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hyggst hætta notkun einkarekinna fangelsa

Birta Svavarsdóttir skrifar
Sally Yates aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
Sally Yates aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Getty
Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur tekið þá ákvörðun að hætta notkun einkarekinna fangelsa í Bandaríkjunum. Bæði telja embættismenn ráðuneytisins þau vera minna örugg og veita verri betrunarvist en ríkisrekin fangelsi. Þetta kemur fram í frétt Washington Post.

Samkvæmt skýrslu frá eftirlitsmanni á vegum ráðuneytisins sem gefin var út í seinustu viku eru einkarekin fangelsi slakari þegar kemur að þjónustu við fanga og öryggis- og eftirlitsmálum heldur en sambærileg ríkisrekin fangelsi. Til að mynda eru líkamsárásir, bæði meðal fanga og fangavarða, mun fleiri í þeim einkareknu auk þess sem uppþot meðal fanga eru algengari og hafa oft mjög alvarlegar afleiðingar.

Í maí 2012 olli uppþot meðal fanga í Adams County Correctional Center í Mississippi í Bandaríkjunum því að tuttugu manns særðust og fangavörður var myrtur. Orsök uppþotsins má samkvæmt skýrslu stofnunarinnar rekja til óánægju fanga með gæði matar og skort á læknisþjónustu.

Samkvæmt minnisblaði frá aðstoðardómsmálaráðherra, Sally Yates, er stefnan tekin á það að draga úr, eða endurnýja ekki samninga við stjórnendur einkarekinna fangelsa. Markmiðið er svo að hætta algerlega notkun þeirra.

Nær þetta til þrettán stofnana í Bandaríkjunum sem samtals hýsa um 22 þúsund fanga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×