Innlent

Bann á útleigu íbúðarhúsnæðis á Djúpavogi

Nanna Elísa Jakobsdóttir og Sæunn Gísladóttir skrifa
Djúpivogur við Berufjörð.
Djúpivogur við Berufjörð. Vísir
Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkti á fundi sínum þann 12. maí síðastliðinn bann á frekari útleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna. Þetta kemur fram í fundargerð sveitarstjórnarinnar.

Þar segir að útleiga íbúðarhúsnæðis til gistingar í flokki II verði óheimil en að þau leyfi sem veitt hafa verið vegna gistingar í flokknum í þéttbýlinu verða þó framlengd til ársins 2020. Þó aðeins ef eftir því verði leitað og því mun þetta ekki gerast sjálfkrafa. Samkvæmt reglugerð telst flokkur eitt einfaldlega heimagisting en flokkur tvö er gististaður án veitinga.

„Heimagisting í flokki I verði einungis heimiluð að undangenginni grenndarkynningu og verði að hámarki átta gistirými í samræmi við skilgreiningu byggingarreglugerðar á flokkun húsnæðis með tilliti til brunavarna. Sýna verður að starfsemin muni ekki hafa truflandi áhrif á íbúðabyggð,“ segir í fundargerð Djúpavogshrepps.

Ákvörðun sveitastjórnarinnar kemur í kjölfar ákvörðunar sveitastjórnar Mýrdalshrepps sem ákvað að banna útleigu íbúðahúsnæðis til skamms tíma í Vík.

Þessi þróun er afleiðing af auknum ferðamannastraumi til landsins og aukningu útleigu á íbúðarhúsnæði á vefsíðum á borð við Airbnb. Í Vík er áfram heimilt að leigja út herbergi til ferðamanna en ekki heilar íbúðir, þetta er í samræmi við bann sem tók gildi í Berlín fyrr á árinu.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×