Enski boltinn

NBA-leikmaður skilur ekkert í Paul Pogba

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Vucevic, Paul Pogba og Jose Mourinho.
Nikola Vucevic, Paul Pogba og Jose Mourinho. Vísir/Getty
Paul Pogba verður fljótlega kynntur sem nýr leikmaður Manchester United en enska félagið mun þá gera hann að dýrasta leikmanni heims samkvæmt erlendum fjölmiðlum.

Paul Pogba hefur átt fjögur frábær ár hjá ítalska félaginu Juventus sem hefur unnið ítalska meistaratitilinn öll árin hans hjá félaginu.

Juventus verður sem fyrr í Meistaradeildinni á næsta tímabili en Manchester United þarf að sætta sig við að spila í Evrópudeildinni.

NBA-leikmaðurinn Nikola Vucevic skilur ekkert í þessari ákvörðun Paul Pogba að óska eftir því að fara frá Juventus til Manchester United. Vucevic velti þessari ákvörðun Frakkans fyrir sér á Twitter.  

„Svo Pogba er að yfirgefa einn besta klúbbinn í heimi til að ganga til liðs við félag sem er ekki einu sinni í Meistaradeildinni," skrifaði Nikola Vucevic á Twitter-síðu sína.

2006-17 verður annað tímabilið á síðustu þremur árum sem Manchester United missir af Meistaradeildinni. Hlutskipti Pogba og nýju liðsfélaga hans í Manchester United er að keppa í Evrópudeildinni á fimmtudögum.

Nikola Vucevic fékk að sjálfsögðu talsverð viðbrögð við færslu sinni en þessi 25 ára og 213 sentímetra Svartfellingur er leikmaður Orlando Magic í NBA-deildinni.

Manchester United er eitt frægasta fótboltafélag heims og það kemur flestum Íslendingum  ekki mikið á óvart að Pogba vilji spila í leikhúsi draumanna í stað þess að spila áfram á Ítalíu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×