Erlent

„Ég hélt í marga tíma að ég væri að fara að deyja“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eyðileggingin í Canoa er gríðarleg að sögn Hildar.
Eyðileggingin í Canoa er gríðarleg að sögn Hildar. mynd/hildur valsdóttir
Hildur Valsdóttir er ung, íslensk kona sem býr í strandbænum Canoa í Ekvador. Bærinn er einn af þeim stöðum sem fór hvað verst út í gríðarlega öflugum jarðskjálfta sem skók landið síðastliðinn laugardag.

Bærinn er í um 90 kílómetra fjarlægð frá Pedernales þar sem upptök skjálftans voru en Hildur flutti til Ekvador til að læra spænsku og ákvað að búa í Canoa því þar er gott að stunda brimbretti.

Hildur er núna stödd í höfuðborg Ekvador, Quito, til að ná í birgðir af nauðsynjum til að fara með til Canoa en hún segir að litla sem enga hjálp sé að fá frá hinu opinbera en meðal annars er mikill vatns-og matarskortur í þeim bæjum og borgum sem fóru hvað verst í skjálftanum. Hundruð manna létust í skjálftanum og þá eru þúsundir slasaðir.

Sá sprungur myndast í veggjunum

Þegar jarðskjálftinn varð var Hildur ekki heima hjá sér heldur í heimsókn hjá vini sínum sem býr skammt fyrir utan Canoa.

„Þegar fyrsti skjálftinn byrjaði vorum við að spila borðtennis inni í byggingu sem hrundi sem betur fer ekki. Til að byrja með fór ég bara að hlæja, ég hélt að þetta væri pínulítill skjálfti eins og ég hafði vaknað við fyrir um einum og hálfum mánuði. En svo áttaði ég mig fljótt á því að hér var eitthvað svakalegt að gerast. Allt byrjaði að hristast og detta niður af veggjum og úr þakinu, það byrjuðu að myndast sprungur í veggjunum og ég var að sjálfsögðu mjög hrædd,“ segir Hildur í samtali við Vísi.

Hún segist hafa þurft að bera eina konu út úr húsinu þar sem hún var eftir skjálftann. Konan hafi ekki verið slösuð en var í svo miklu sjokki að hún gat ekki labbað. Hildur segist hafa hlaupið upp í fjall ásamt hópi af fólki þar sem þau óttuðust að flóðbylgja myndi skella á ströndinni. Það gerðist þó ekki en fjölmargir eftirskjálftar urðu hins vegar.

Líkaminn uppgefinn af hræðslu

„Við flúðum upp í fjall og þar var bara panikk, allir hlaupandi og öskrandi úti um allt. Sumir voru fatalausir, bara með handklæði utan um sig því þeir höfðu verið í sturtu þegar skjálftinn varð. Það var enginn matur, ekkert vatn og svo byrjaði að rigna þannig að fólki varð heldur kalt. Það var mikið af slösuðu fólki og margir létust um nóttina af sárum sínum,“ segir Hildur.

Hún segist hafa verið heppin að komast inn í rútu til að hvíla sig og hlýja sér.

 

„Líkaminn var uppgefinn af hræðslu og ég steinsofnaði en svo klukkutíma síðar datt ég næstum því úr sætinu því það koma annar skjálfti. Ég er ekki frá því að ég hafi verið hræddari þá, ég hélt að þetta væri búið. Svo kemur annar svona stór og ég hélt í marga tíma að ég væri að fara að deyja. Svona tilfinning sem stafar af miklu öryggisleysi er hræðileg,“ segir Hildur.

Hjálp barst ekki fyrr en eftir 36 tíma

Það var ekki hægt að fara til Canoa svo Hildur dvaldi uppi á fjallinu í um 12 tíma. Daginn eftir fór hún svo og náði í það sem hún átti af skyndihjálparbúnaði og fór til Canoa að hjálpa fólkinu sem var þar. Hún segir að í bænum hafi verið dáið fólk alls staðar og mjög margir slasaðir. Enga hjálp var hins vegar að fá frá yfirvöldum.

„Við fengum ekki hjálp fyrr en 36 tímum eftir skjálftann. Forsetinn, Rafael Correa, var í Vatíkaninu og tók ekki ákvörðun um að senda hjálp á svæðið fyrr en um 24 tímum eftir fyrsta skjálftann. Hann kíkti í heimsókn til Canoa, tók nokkrar myndir og fór,“ segir Hildur.

Hún lýsir því svo að þegar hún kom til Canoa sá hún að þeir sem lifðu af voru byrjaðir að leita í einni húsarúst í bænum.

„Það var ekkert í boði nema hamrar og sleggjur. Þú getur ímyndað þér hvernig það er að reyna að grafa fólk út úr 4. hæða byggingu sem er gjörsamlega hrunin. Það voru eiginlega allir dánir nema svo gerðist það ótrúlega að við fundum eina konu á lífi eftir 18 tíma. Það var enginn læknir á staðnum og engar hjúkkur svo ég tók á móti henni. Þetta var ótrúlegt, hún var bara farin úr axlarlið en annars allt í góðu. Þegar ég fór svo til dóttur hennar til að segja henni að mamma hennar myndi lifa af þá fór hún að gráta og spurði „En dóttir mín? Hvar er dóttir mín?“ Þessi kona missti alla fjölskyldu sína nema mömmu sína,“ segir Hildur.

Margir misstu aleiguna í skjálftanum og hafast við í tjöldum úr bambusgreinum og plasti. Þessi kona stendur við þjóðveginn skammt frá Pedernales þar sem upptök skjálftans voru og biður um hjálp.vísir/getty
„Þetta var hræðilegur sólarhringur“

Áður en að hjálp barst til Canoa var líkum þeirra sem höfðu farist í skjálftanum vafið inn í lök og safnað saman á einn stað.

„En þegar maður labbaði um bæinn gat maður séð dáið fólk undir steypunni. Ég gleymi ekki einum manni, ég sé hann alltaf fyrir mér þegar ég loka augunum. Hann lá alveg við endann þar sem gatan og byggingin mættust og hann teygði hendurnar áfram út eins og hann væri að reyna að skríða út. Svo sá maður hendur og fætur á börnum stingast út hér og þar undan steypunni. Þetta var hræðilegur sólarhringur.“

Eftir að hið opinbera sendi aðstoða komu fleiri og fleiri sjálfboðaliðar til Canoa. Þá var hægt að fara að leita í fleiri húsarústum en Hildur hefur mest verið að vinna við heilbrigðisþjónustu, bæði í Canoa og í nærliggjandi þorpum þar sem fólk var ekki búið að fá neina aðstoð. Hún fór síðan til Quito á miðvikudaginn til að sækja mat, vatn og aðrar nauðsynjar en hún hóf söfnuninni í vikunni til að geta farið og keypt það sem til þarf.

„Ríkið sendir ekkert til okkar og fólk hefur lítinn mat og drykk. Þá eru mjög margir búnir að missa allt og sofa úti í „tjöldum,“ sem eru bara bambusspýtur og með plastábreiðu. Ég fer til Canoa á morgun en ég er búin að fá vörubíl lánaðan ókeypis og svo er ég með fjóra jeppa til að fylla. Ég er ótrúlega þakklát fyrir hvað fólk er búið að vera duglegt að styrkja til að gera þetta mögulegt en við þurfum meiri hjálp,“ segir Hildur.

Fer með 200 neyðarpakka til Canoa á morgun

Hún leggur áherslu á að hjálp frá ríkinu er af skornum skammti. Þá mega Ekvadorar ekki lengur fara inn á hamfarasvæðin til að hjálpa en Hildur má fara inn með birgðir því hún er útlendingur. Herinn hefur til að mynda verið að taka birgðir af Ekvadorum sem hafa ætlað að fara með hjálpargögn inn á svæðin.

Hildur veit ekki hvað gert sé við birgðirnar en hún segir að sér þyki andstyggilegt hversu lengi það tók fyrir hjálp að berast til Canoa og annarra lítilla þorpa og bæja í kjölfar skjálftans. Þá séu nauðsynjar af svo skornum skammti að verið sé að ræna mati og vatni af fólki.

„Það sýnir svolítið hversu örvæntingarfullt fólk er orðið. Okkur vantar því alla þá hjálp sem við getum fengið. Á morgun fer ég til Canoa með 200 neyðarpakka en í þeim er vatn, matur, klósettpappír, bleyjur, sótthreinsir, sápa, tannburstar, tannkrem, moskítósprey og ýmislegt fleira,“ segir Hildur og bætir við að hún ætli einnig að byggja klósett í tjaldbúðunum í Canoa.

Hún vonast til að geta farið síðan aftur til Quito að sækja meira en þeir sem vilja styrkja hjálparstarf Hildar geta lagt inn á reikninginn 0111-26 13822, kennitala 270486-4289.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×