Erlent

Uppreisnarmenn segja vopnahléi náð í Aleppo

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fjöldi fólks hefur látið lífið í átökunum sem geisað hafa í austurhluta Aleppo síðustu daga.
Fjöldi fólks hefur látið lífið í átökunum sem geisað hafa í austurhluta Aleppo síðustu daga. vísir/getty
Uppreisnarmenn í austurhluta Aleppo segja að vopnahléi hafi nú verið náð og að byrjað að verði að rýma þau svæði þar sem almennir borgarar eru innlyksa snemma á fimmtudagsmorgun.

Frá þessu er greint á vef BBC en ekkert varð af samkomulagi um vopnahlé sem Rússar og Tyrkir gerðu í gær og hafa bardagar því haldið áfram í borginni í dag.

Hvorki sýrlensk stjórnvöld né þeirra helstu bandamenn, Rússar, hafa þó staðfest að vopnahlé hafi náðst en samkvæmt uppreisnarmönnunum felst í samkomulaginu nú að tvö þorp í norðvesturhluta Sýrlands sem eru á valdi uppreisnarmanna verða einnig rýmd.

Sýrlensk stjórnvöld og Íranar, bandamenn þeirra, hafa sagt að austurhluti Aleppo verði ekki rýmdur nema þorpin tvö verði einnig rýmd.

Sprengjum hefur rignt yfir Austur-Aleppo síðustu daga en tugþúsundir íbúa eru innlyksa á svæðum sem hafa verið á valdi uppreisnarmanna. Þar eru vatn og matur af afar skornum skammti.

Sameinuðu þjóðirnar staðfestu í vikunni fjöldamörð sýrlenska stjórnarhersins á almennum borgurum í Aleppo en talið er að stjórnvöld í Sýrlandi hafi gerst sek um stríðsglæpi í borginni síðustu daga.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×