Erlent

Sigrún undirritaði fyrir Íslands hönd

Birta Björnsdóttir skrifar
Aldrei hafa fulltrúar svo margra ríkja undirritað samkomulag sem þetta en ríkin 171 skuldbinda sig til að leggjast á árar í loftslagsmálum.

Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, boðaði til undirskriftarinnar í New York í dag, og í kjölfar undirskrifarinnar fór fram ráðherrafundur um sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Undirritunin jafngildir þó ekki fullgildingu ákvæðanna sem í samningnum eru, en með undirskriftinni lýsa ríkin yfir vilja sínum til fullgildingar og þar með að skuldbinda sig alþjóðalögum til að framfylgja ákvæðum samkomulagsins.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, skrifaði undir samkomulagið fyrir hönd Íslands.

Til að loftslagssamkomulagið taki gildi þurfa 55 ríki, sem losa samanlagt að minnsta kosti 55% gróðurhúsalofttegunda í heiminum, að staðfesta samkomulagið.

Ljóst er að margt þarf að breytast eigi markmiðin að nást. Allt bendir til að markmið þjóða heims sem sett voru árið 2009 náist ekki, um að tryggja að lofthiti hækki ekki meira en tvær gráður yfir það sem hann var fyrir iðnbyltingu.

Leikarinn og umhverfissinninn Leonardo DiCaprio hélt ræðu um ábyrgð yfirvalda í þessum málum í New York í dag, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×