„Ég útiloka ekki neitt en það er ekki mitt að taka þá ákvörðun. Þetta er ekki bindandi kosning en ég segi einfaldlega til hvers að halda prófkjör ef leikreglunum er breytt eftir á? Það er annað og erfiðara mál,“ segir Vilhjálmur í samtali við fréttastofu.

Aðspurður hvort ekki væri erfitt fyrir flokkinn að fara inn í kosningar með fjóra karlmenn í fjórum efstu sætunum segir Vilhjálmur:
„Ég ætla ekkert að segja til um það en til hvers að halda prófkjör ef menn eru ósáttir við niðurstöðuna og breyta henni þá?“
Það má segja að konur í Sjálfstæðisflokknum hafi beðið afhroð í prófkjörum flokksins í Suðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi í gær. Þannig skipa karlar þrjú efstu sæti flokksins í Suðurkjördæmi en Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar-og viðskiptaráðherra sem leitt hefur listann endaði í fjórða sæti og þingmaðurinn Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður hafnaði í fimmta sæti.

Páll Magnússon fjölmiðlamaður leiðir lista flokksins í Suðurkjördæmi og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í Suðvesturkjördæmi. Kosningin er ekki bindandi og því geta kjördæmisráð flokksins breytt uppröðun á listunum og fært konur ofar.
Hvort það verði gert liggur ekki fyrir en ljóst er að Sjálfstæðiskonur eru afar ósáttar við stöðuna. Þannig harmaði framkvæmdastjórn Landsambands sjálfstæðiskvenna harmar niðurstöðu prófkjörsins Suðvesturkjördæmi í tilkynningu sem stjórnin sendi frá sér í gærkvöldi eftir að niðurstaðan lá fyrir.
„Til að tefla fram sigurstranglegum lista verður kynjahlutfall að vera jafnara en nú er. Konum hefur með þessari niðurstöðu verið hafnað í Suðvesturkjördæmi. Það er ekki einungis slæmt fyrir konur, heldur fyrir flokkinn allan og kemur til með koma niður á fylgi flokksins í komandi kosningum,“ sagði í tilkynningunni.
Uppfært klukkan 12:05
Páll Magnússon, sem hafnaði í fyrsta sæti listans í Suðurkjördæmi, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að varhugavert væri að gera breytingar á lýðræðislega kjörnum lista.