Guðbrandur segir að þetta hafi verið samstarfsverkefni Borgarsögusafns og hugvísindasviðs Háskóla Íslands með námskeiði sem heitir menningarminjar, söfn og sýningar og er kennt innan námsbrautar í hagnýtri menningarmiðlun. „Þetta er meistaranám innan sagnfræðinnar og með þessu samstarfi fengu nemendur tækifæri til þess að kynnast ýmsum þáttum starfseminnar hjá Borgarsögusafninu svo sem hjá Árbæjarsafni, Ljósmyndasafni, geymslum safnsins og svo Sjóminjasafni. Þessi sýning er afrakstur lokaverkefnisins þar sem sérfræðingur í þorskastríðunum kom og talaði við hópinn og síðan sökktu þau sér í heimildir, bæði innlendar og erlendar.“

Það er ágætt að hafa það í huga að af þeim sem koma á sýninguna eru kannski fæstir sem muna þennan tíma. Sjálfur var ég aðeins þriggja ára þegar þorskastríðunum lauk. Það er auðvitað staðreynd að þetta er að verða fjarlægt sífellt stærri hluta þjóðarinnar. Við reynum líka að varpa ljósi á ákveðna þætti eins og í hverju fólust átökin, hvernig var orðræðan og annað slíkt.
Þetta var geysilega mikilvægur tími í sögu Íslands en þetta er flókin saga. Ef maður kafar ofan í hana sér maður að hún er full af goðsögum sem sumar hverjar hafa jafnvel dúkkað aftur upp síðar eins og t.d. í Icesave-deilunni. Þannig að það er þarna þekking sem við þurfum að viðhalda og sýning sem þessi hentar vel til þess.“
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. maí.