Erlent

Danskt transfólk brátt ekki í flokki geðveikra

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
LBGT fáninn í gleðigöngunni í Reykjavík.
LBGT fáninn í gleðigöngunni í Reykjavík. vísir/valli
Danmörk stefnir að því að verða fyrsta landið í heiminum sem ekki skilgreinir það að vera trans sem geðsjúkdóm. Fjallað er um málið á vef Independent.

Trans er skilgreint sem geðsjúkdómur af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Ríkisstjórn Danmerkur hefur gefið út að það sé smánarblettur og að þolinmæði hennar sé á þrotum. Ekki sé lengur hægt að bíða bara eftir því að WHO geri eitthvað.

Málið hefur verið til athugunar hjá WHO að undanförnu en breytingar þar eru ofthægar. Danir vonast til þess að með því að breyta skilgreiningunni hjá sér muni komast skrið á málið hjá stofnuninni.

„Það er gífurlega óréttlátt að skipa transfólki í flokk með fólki með geðsjúkdóma og hegðunarvandamál. Það hefur einnig fleiri vandamál í för með sér til að mynda í sjúkratryggingakerfinu. Þessu þarf að breyta,“ segir Möller Mortensen, talsmaður Sósíaldemókrataflokksins í heilbrigðismálum, í samtali við danska blaðið Ritzau.

Stefnt er að því að breytingin gangi í gegn um næstu áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×