Innlent

Kúluskítur finnst á ný í Mývatni

Svavar Hávarðsson skrifar
Kúluskíturinn hefur fundist á þremur stöðum nýlega.
Kúluskíturinn hefur fundist á þremur stöðum nýlega. Mynd/Ramý
„Kúluskítsbörn í Mývatni! Í stormviðrinu undanfarna daga hefur borist dálítið af þörungaló upp á strönd Mývatns við Vagnbrekku. Þetta er tegundin „Aegagropila linnaei“ eða vatnaskúfur, sú sem myndar kúluskítinn. Það eru góðar fréttir, en bestu fréttirnar eru þó að nokkur kúluskítsbörn fundust innan um upprekið. Þau voru tekin í gjörgæslu.“

Hér heldur á penna Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn (RAMÝ), í færslu sem birt var á Facebook-síðu RAMÝ í gærmorgun. Þess má geta að í vor hefur kúluskítur fundist í þrígang við vatnið.

Árni hefur engar skýringar á því ennþá af hverju kúluskíturinn finnst þetta vorið, en árið 2013 var talið að þetta vaxtarform grænþörungsins Aegagropila linnaei væri horfið úr vatninu.

Þörungurinn sjálfur var tekinn að vaxa lítillega seint í fyrra og mjög staðbundið, en ekki kúluskíturinn sjálfur, segir Árni.

„Þeir vaxa frekar hratt við rétt skilyrði, og þetta eru mjög ánægjuleg tíðindi og segir okkur það að tegundin getur þrifist, og grænþörungurinn sjálfur er ennþá í vatninu, eins og við reyndar töldum okkur vita fyrir víst,“ segir Árni og tekur undir hvað náttúran sé mikið ólíkindatól.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×