Sé horft til síðustu forsetakosninga í Bandaríkjunum eru ákveðin ríki sem flokka má sem svokölluð sveifluríki (Swing states) þar sem stuðningur kjósenda sveiflast á milli kosninga. Þessi ríki eru Michigan, Wisconsin, Virginía, Colorado, Pennsylvanía, New Hampshire, Flórída, Norður-Karólina, Ohio, Iowa og Nevada.

Clinton og helstu samstarfsmenn virðast þó ekki hafa haft miklar áhyggjur af þessari þróun enda er langt síðan framboð hennar kom auga á sex sveifluríki sem tryggja munu Clinton sigur takist henni að vinna þar. Í öllum þessum sex ríkjum hefur Clinton haft mikla og góða forystu lengst af.
Hvaða ríki eru þetta og af hverju eru þau kölluð eldveggur?
- Michigan - 16 kjörmenn
- Virginía - 13 kjörmenn
- Wisconsin - 10 kjörmenn
- Colorado - 9 kjörmenn
- Pennsylvanía - 20 kjörmenn
- New Hampshire - 4 kjörmenn
Eldveggur er hugtak úr tölvuheiminum og á við hugbúnað sem ver tölvur fyrir utanaðkomandi árásum. Ekkert á að geta komist í gegnum vegginn og þannig er hugtakið nýtt í tengslum við kosningarnar í Bandaríkjunum. Clinton og starfsmenn hennar telja að sama hvað Trump geri geti hann ekki unnið eitt af þessum sex ríkjum á sitt band.
Sé miðað við þau ríki sem yfirleitt kjósa frambjóðendur Demókrata nægir Clinton að vinna sigur í þessum sex ríkjum til þess að komast yfir þá 270 kjörmenn sem þarf til þess að verða næsti forseti Bandaríkjanna. Takist það skiptir engu máli þó að Trump vinni sigur í öðrum sveifluríkjum, honum tekst ekki að ná 270 kjörmönnum.
Úrslit kosninganna sigri Clinton í hefðbundnum Demókrataríkjum auk lykilríkjanna sex en tapi öðrum sveifluríkjum

Ætli Trump sér sigur þarf hann að næla sér í að minnsta kosti ellefu kjörmenn innan við eldvegg Clinton. Trump hefur sótt á, helst í New Hampshire sem er þó aðeins með fjóra kjörmenn. Bilið hefur einnig minnkað í öðrum ríkjum ogt ljóst er að Clinton og framboð hennar líta þessa þróun alvarlegri augum nú en fyrir nokkrum vikum. Clinton og eiginmaður hennar Bill, ásamt Barack Obama og öðrum þungavigtarmönnum innan Demókrataflokksins stefna á að koma við í þessum ríkjum á lokasprettinum.
Kosið verður aðfaranótt miðvikudags að íslenskum tíma. Spennan er mikil þó að Clinton þyki sigurstranglegri.