Viðskipti innlent

Boðið í húsnæði Smárakirkju og Krossgatna

ingvar haraldsson skrifar
Forstöðumaður Smárakirkju segir að viðræður standi enn yfir, ekkert hafi verið ákveðið.
Forstöðumaður Smárakirkju segir að viðræður standi enn yfir, ekkert hafi verið ákveðið. réttablaðið/stefán
Búið er að gera kauptilboð í húsnæði Smárakirkju, sem áður hét Krossinn, og áfangaheimilisins Krossgatna, sem bæði eru í Hlíðarsmára 5-7. Þetta segir Sigurbjörg Gunnarsdóttir, forstöðumaður Smárakirkju. Hún segir ljóst að söfnuðurinn þurfi að flytja verði af viðskiptunum en engar ákvarðanir hafi verið teknar um framtíð áfangaheimilisins. Í húsnæðinu eru 25 félagslegar íbúðir.

Smárakirkja og Krossgötur hafa óskað eftir því við Kópavogsbæ að fá að framselja lóðina að Hlíðarsmára til félagsins Kapex fyrir hönd félagsins L1100 ehf. Jóhannes Hauksson er stjórnarformaður L1100 og sjóðsstjóri Íslandssjóða, sem rekur meðal annars sjóði sem fjárfesta í húsnæði.

Í umsögn fjármálastjóra Kópavogsbæjar til bæjarráðs segir að óheimilt sé að selja áfangaíbúðirnar nema með samþykki veðhafa og byggingaryfirvalda. Þá séu áform um að breyta notkun hússins. Á lóðinni er áhvílandi veðskuldabréf sem Kópavogsbær er í ábyrgð fyrir. Því telur fjármálastjóri bæjarins mikilvægt að krafa verði gerð um að skuldabréfin verði greidd upp.

Bæjarráð frestaði afgreiðslu málsins á fundi sínum 23. mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×