Erlent

Serbneski þjóðernissinninn Seselj sýknaður

Atli Ísleifsson skrifar
Seselj hefur að undanförnu tekið þátt á kosningafundum þjóðernissinna, en þingkosningar verða haldnar í Serbíu 24. apríl næstkomandi.
Seselj hefur að undanförnu tekið þátt á kosningafundum þjóðernissinna, en þingkosningar verða haldnar í Serbíu 24. apríl næstkomandi. Vísir/AFP
Stríðsglæpadómstóll Sameinuðu þjóðanna hefur sýknað serbneska þjóðernissinnann og stjórnmálamanninn Vojislav Seselj af öllum ákæruliðum um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni á tímum stríðsins á Balkanskaga á tíunda áratugnum.

Í dómsorðum segir að Seselj beri enga persónulega ábyrgð á glæpunum. Hann neitaði öllum ákæruliðum og sagði eftir að dómurinn lá fyrir að dómurinn hefði ekki getað komist að annarri niðurstöðu.

Hinn 61 árs Seselj var meðal annars sakaður um þjóðernishreinsanir, morð, pyndingar, skemmdarverk og rán í baráttu sinni fyrir því að hrekja aðra en Serba frá svæðum innan landa gömlu Júgóslavíu. Var hann sagður hafa notið aðstoðar 30 þúsund sjálfboðahermanna sem drápu og pynduðu óbreytta borgara í Króatíu og Bosníu.

Saksóknari hafði farið fram á 28 ára fangelsisdóm, en hann var ákærður árið 2003.

Selselj var heimilað að fara til Belgrad árið 2014 eftir að hafa greinst með krabbamein og var hann ekki viðstaddur í réttarsalnum í Haag þegar dómur féll. Í frétt BBC segir að hann hafi jafnframt hafnað boði dómstólsins um að fylgjast með uppsögu í beinni útsendingu frá Serbíu.

Seselj hefur að undanförnu tekið þátt á kosningafundum þjóðernissinna þar sem þingkosningar verða haldnar í landinu 24. apríl næstkomandi.

Hann kom á fót róttækum þjóðernisflokki árið 1990 og var kjörinn á þing ári síðar. Hann varð aðstoðarforsætisráðherra árið 1998.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×