Innlent

Klessu­bílunum í Smáratívolí lokað eftir að sjö ára stúlka fékk raf­lost

Nína Hjördís Þorkelsdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Klessubílarnir voru ekki í notkun í Smáratívolíi í kvöld.
Klessubílarnir voru ekki í notkun í Smáratívolíi í kvöld. vísir/ernir
Sjö ára stúlka hlaut raflost í Smáratívolí í Smáralind í gær og hefur bílunum verið lokað vegna slyssins. Að sögn lögreglu var stúlkan að keyra klessubíl þegar keðjuól veskis sem hún bar datt í gólfið með þeim afleiðingum að skammhlaup varð og hún fékk straum.

Stúlkan var í afmæli í tívolíinu en slysið varð um þrjúleytið. Móðir afmælisbarnsins hringdi í foreldra stúlkunnar sem komu og náðu í hana og fóru með hana á slysavarðstofu til athugunar.

Á spítalanum tjáði læknirinn þeim að slysið væri þess eðlis að hann þyrfti að hringja á lögregluna og senda hana á vettvang til að kanna aðstæður, en stúlkan slasaðist sem betur fer ekki alvarlega.

Slysið var því ekki tilkynnt til lögreglu strax en þegar lögreglan kom á vettvang hringdi hún á Vinnueftirlitið sem kom og lokaði klessubílunum.

Að sögn Maríu Bjarkar Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Smáratívolís, eru klessubílarnir ennþá lokaðir en Vinnueftirlitið mun hefja rannsókn á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×