Enski boltinn

Liverpool rasskellti Watford og komst í toppsætið | Sjáðu mörkin

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Lærisveinar Jurgen Klopp unnu öruggan 6-1 sigur á Watford á heimavelli í dag en með sigrinum lyfti Liverpool sér upp í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar fyrir landsleikjahlé.

Eftir jafntefli Manchester City og Arsenal í gær var það ljóst að sigur myndi þýða að Liverpool kæmist í toppsætið fyrir síðasta landsleikjahlé ársins.

Liverpool var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og komst verðskuldað 2-0 yfir með tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla með mörkum Sadio Mane og Philippe Coutinho.

Emre Can bætti við þriðja marki Liverpool undir lok fyrri hálfleiks eftir sendingu Adam Lallana og gerði út um leikinn en sóknarmenn Liverpool voru ekki hættir.

Roberto Firminho bætti við fjórða marki Liverpool á 57. mínútu og aðeins þremur mínútum síðar bætti Mane við öðru marki sínu og fimmta marki Liverpool.

Watford tókst að skora sárabótarmark á 75. mínútu þegar hollenski bakvörðurinn Daryl Janmaat lagði boltann í hliðarnetið en sigurinn var aldrei í hættu.

Hollenski miðjumaðurinn Georginio Wijnaldum sem kom inn af bekknum hjá Liverpool bætti við sjötta marki Liverpool í uppbótartíma.

Þetta var níundi leikurinn í röð án ósigurs hjá Liverpool en Liverpool hefur skorað flest mörk í deildinni að 11 leikjum loknum, alls 30 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×