Lífið

Réttlæti fyrir Harambe

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Górillan Harambe hefur verið undarlega mikið í sviðsljósinu og má segja að líf hans haldi áfram á internetinu.
Górillan Harambe hefur verið undarlega mikið í sviðsljósinu og má segja að líf hans haldi áfram á internetinu.
Górilluapinn Har­ambe var skotinn til bana í dýragarðinum í Cincinnati eftir að þriggja ára barn datt inn fyrir girðinguna hans í vor. Uppi voru háværar raddir sem voru afar óánægðar og sorgmæddar yfir atburðinum – reiði margra beindist að foreldrum barnsins sem var kennt um það að Harambe var skotinn. Í kjölfarið birtist myndband á YouTube sem rakaði inn áhorfum og athugasemdirnar voru margir tugir þúsunda áður en myndbandið var tekið niður.

Internetið fór á flug og í fyrstu var umræðan öll þess eðlis að þarna hefði verið um óréttlátt dráp að ræða og undirskriftalisti sem bar titilinn „Réttlæti fyrir Harambe“ fékk yfir 300.000 undirskriftir. En eins og flestir þekkja er internetið miskunnarlaust – þessari innilegu og alvarlegu kröfu fólks sem var reitt og sorgmætt yfir drápi Harambe var fljótt breytt í kaldhæðni.

Myndir af Harambe voru skeyttar saman við myndir af þekktum einstaklingum sem létust á árinu, notendur á Twitter fóru að breyta textum við þekkt lög þannig að þeir snerust um Harambe og fárið náði síðan hámarki þegar frasinn „Dicks out for Harambe“ spratt skyndilega upp (ég ætla að láta það vera að þýða þennan blessaða frasa hér).

Í ör-myndbandaappinu Vine má finna ýmis myndbönd þar sem ungir menn sjást hrópa þennan frasa, vinsælast af því er líklega myndband þar sem B-myndaleikarinn Danny Trejo hrópar frasann hátt og snjallt. Facebook-síða tileinkuð meme-um setti í gang viðburð þar sem fólk var hvatt til að heimsækja Hvíta húsið 16. júlí og bera á sér kynfærin til að sýna górillunni samstöðu. Martin Shkreli, sem komst í heimsfréttirnar fyrir að hækka verð á alnæmislyfjum og alls konar aðra undarlega hluti, mætti á CNBC þar sem hann talaði, mjög líklega á kaldhæðinn hátt um Harambe í mjög furðulegu viðtali.

Líklega var brandarinn hættur að vera fyndinn um þetta leyti, en það má vafalaust deila um það – hins vegar var það á þessum tímapunkti sem notendur á internetinu fóru að ganga ansi langt.

Twitter-aðgangur Thane Maynard, stjórnanda dýragarðsins í Cincinnati, var hakkaður og notaður til þess að senda út Harambe-meme. Í kjölfarið sendi dýragarðurinn út tilkynningu sem birtist í The Independent þar sem áhugi internetsins á Harambe var harmaður. Athugasemdakerfið troðfylltist af Harambe-bröndurum og kassamerkjum. Dýragarðurinn í Cincinnati lokaði öllum samfélagsmiðlum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×