Hannes er einn af hetjum íslenska liðsins enda bjargaði hann margoft með glæsilegum hætti þegar pressan var hvað mest á íslenska liðið á mótinu.
Hannes komst kannski ekki í úrvalslið UEFA en hann varði flest skot allra markvarða og er líka einn af átta leikmönnum á EM sem UEFA hefur valið í grein sinni um þá leikmenn sem sprungu út á Evrópumótinu í Frakklandi.
UEFA nefnir þar leikmenn sem gerbreyttu lífi sínu með frammistöðu sinni á mótinu sem lauk með sigri Portúgals á sunnudagskvöldið.
Hannes er ekki bara einn af þessum átta leikmönnum því auk þess að telja hann með í þessum hóp þá er aðalmynd greinarinnar tilfinningarík mynd af okkar manni.
Einn annar markvörður er í hópnum eða norður-írski landsliðsmarkvörðurinn Michael McGovern sem átti meðal annars ótrúlegan leik á móti heimsmeisturum Þjóðverja.
Hinir sex eru 22 ára bakvörður frá Portúgal (Raphaël Guerreiro), 27 ára framhjá frá Wales (Hal Robson-Kanu), 29 ára kantmaður frá Spáni (Nolito), 22 ára varnarmaður frá Albaníu (Arlind Ajeti), 28 ára pólskur miðvörður (Michal Pazdan) og 24 ára hægri bakvörður frá Belgíu (Thomas Meunier).
Í umfjölluninni um Hannes segir að þessi kvikmyndaleikstjóri í hlutastarfi hafi aðeins orðið atvinnumaður fyrir þremur árum síðan en á EM hafi hann sýnt að hann sé klár á stóra sviðið með því að koma í veg fyrir að menn eins og Cristiano Ronaldo, David Alaba og Harry Kane skoruðu hjá íslenska liðinu. Íslenska liðið fór síðan alla leið í átta liða úrslitin og Hannes varði fleiri skot en nokkur annar markvörður á Evrópumótinu.



Eight players whose lives may never be the same again after impressing in France: https://t.co/trnQiVxbYk #EURO2016 pic.twitter.com/NvxFYYVt7d
— UEFA EURO 2016 (@UEFAEURO) July 12, 2016