Erlent

Vill ekki afsökunarbeiðni frá Cameron

Samúel Karl Ólason skrifar
David Cameron og Muhammadu Buhari.
David Cameron og Muhammadu Buhari. Vísir/EPA
Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, segist ekki vilja afsökunarbeiðni frá David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Cameron hafði lýst Nígeríu sem einstaklega spilltu landi í samtali sínu við drottningu Bretlands, en samtalið náðist á upptöku.

Buhari, sem sækir nú heim ráðstefnu gegn spillingu í Bretlandi, segir Cameron hafa rétt fyrir sér. Hann er tiltölulega nýr í forsetastóli og hefur einsett ríkisstjórn sinni að berjast gegn spillingu þar í landi.

Sjá einnig: David Cameron við drottningu Bretlands: „Hingað eru að koma leiðtogar svaka spilltra ríkja“  

„Hann var að segja sannleikann,“ sagði Buhari við BBC.

Varaforseti Nígeríu sagði í síðustu viku að um 15 milljörðum dala hefði verið stolið á tímum fyrri ríkisstjórnar landsins. Það hefði verið gert í tengslum við vopnasamninga. Þá var komist að því í mars að olíufyrirtæki ríkisins hefði komist hjá því að greiða 25 milljarða dala í sektir.

Í ræðu sinni á ráðstefnunni í London sagði Buhari að spilling væri marghöfða skrímsli sem ógnaði öryggi ríkja og greindi ekki á milli þróunarríkja og annarra. Hann lofaði yfirvöld í Bretlandi fyrir hjálp þeirra við tilraunir til að endurheimta stolið fé sem geymt er í breskum bönkum. Hann sagðist ekki vilja afsökunarbeiðni, heldur frekari hjálp við að endurheimta áðurnefnt fé




Fleiri fréttir

Sjá meira


×