Erlent

Öldungaþing Brasilíu íhugar að höfða mál gegn forsetanum

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Dilma Rousseff var borubrött þegar hún hélt ræðu fyrir framan stuðningsmenn sína í dag og sagði aðförina gegn sér vera aðför að öllum brasilískum konum.
Dilma Rousseff var borubrött þegar hún hélt ræðu fyrir framan stuðningsmenn sína í dag og sagði aðförina gegn sér vera aðför að öllum brasilískum konum. Vísir/Getty
Öldungaþing Brasilíu ræðir nú hvort Dilma Rousseff forseti muni sitja réttarhöld sem gætu leitt til þess að hún missi embættið verði hún fundin sek. Rousseff er sökuð um að hagræða upplýsingum um efnahag þjóðarinnar til þess að fela vaxandi skuldastöðu landsins í kosningabaráttunni 2014 þegar hún náði endurkjöri. Kröftug mótmæli og óeirðir fylgdu í kjölfar þess að fjölmiðlar upplýstu um málið í mars.

Rousseff biðlaði nýverið til hæstaréttar landsins um að stöðva atburðarásina en þeirri bón var hafnað.

Ákveði öldungaþingið að höfða mál gegn forsetanum verður hún að láta af störfum samstundis á meðan á rannsókn málsins stendur. Verði hún fundin sek verður henni vikið formlega úr embætti. Þá mun Michel Temer, varaforseti, sitja út kjörtímabilið sem rennur út í desember 2018.

Rousseff og stuðningsmenn hennar höfðu vonast til að sleppa undan því að málið færi fyrir öldungaþingið eftir að kosning neðri deildar þingsins um að senda málið til öldungaþingsins var gerð ógild en allt kom fyrir ekki.


Tengdar fréttir

Málshöfðun blasir við Rousseff

Erfitt efnahagsástand og risastórt hneykslismál hafa orðið til þess að Dilma Rousseff, forseti Brasilíu, virðist vera í þann mund að missa embættið.

Allar líkur á að Roussef verði sótt til saka

Neðri deild brasilíska þingsins hefur samþykkt með auknum meirihluta, eða tveimur þriðju hluta atkvæða, að hefja vinnu við að sækja sitjandi forseta landsins, Dilmu Rousseff til saka fyrir að fegra ríkisbókhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×