Innlent

Rannsaka hvort læknisaðgerðir á einkastofum séu algengari á Íslandi

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Embætti Landlæknis hefur ákveðið að rannsaka hvort ýmsar læknisaðgerðir séu gerðar í meira mæli á einkastofum hér á landi en í löndum í kring um okkur. Landlækni grunar að svo sé og að greiðslukerfi íslenska heilbrigðiskerfisins hafi áhrif. 

Í fréttum okkar í gær var greint frá því að Íslendingar eiga Evrópumet í hálskirtlatökum en í öðrum löndum í Evrópu er mun sjaldgæfara að læknar telji ástæðu til að fjarlægja hálskirtla úr börnum eða fullorðnum. Til dæmis voru þrisvar sinnum færri hálskirtlatökur í Svíþjóð árið 2014 en á Íslandi.

Landlæknir telur að þetta eigi ekki einungis við um hálskirtlatökur og hefur ákveðið að  rannsaka málið. „Það væri eitthvað skrítið ef það væru bara hálskirtlatökur þannig að ég reikna með því að þetta gildi um fleiri aðgerðir,“ segir Birgir Jakobsson, landlæknir.  

Í rannsókninni verður sjónum beint að einkastofum. „Þær aðgerðir sem eru mest gerðar í dag eru kannski bæklunaraðgerðir,“ segir Birgir en einnig kemur til greina að skoða fjölda lýtaaðgerða á Íslandi miðað við aðrar þjóðir. 

Birgir telur að greiðslukerfi íslenska heilbrigðiskerfisins hafi áhrif á fjölda aðgerða hér á landi. „Það er alþjóðleg reynsla að ef þú borgar fyrir hvert viðvik þá færðu mjög mörg viðvik. Það er bara þannig og þessvegna eru flestar þjóðir í dag að haga sínu greiðslukerfi á annan hátt,“ segir Birgir.

Hann útskýrir að ef áðurnefndur grunur embættisins reynist á rökum reistur verði að bregðast hratt við. Oflækningar séu ekki í lagi.

 


Tengdar fréttir

Íslendingar eiga Evrópumet í hálskirtlatökum

Íslendingar eiga Evrópumet í hálskirtlatökum en í öðrum löndum í Evrópu er mun sjaldgæfara að læknar telji ástæðu til að fjarlægja hálskirtla úr börnum eða fullorðnum. Landlæknir segir að greiðslukerfi íslenska heilbrigðiskerfisins hafi klárlega áhrif á fjöldann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×