Innlent

Hafa ítrekað kvartað undan einelti starfsmanns á Litla-Hrauni

Heiðar Lind Hansson skrifar
Frá Litla-Hrauni.
Frá Litla-Hrauni.
Fangar á Litla-Hrauni hafa á undanförnum árum ítrekað kvartað undan starfsmanni fangelsisins sem fjallað var um í áliti umboðsmanns Alþingis 26. september síðastliðinn. Þetta segir Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun. Starfsmaðurinn er deildarstjóri á Litla-Hrauni og hefur starfað í fangelsinu frá aldamótum. Hann er staðgengill forstöðumanns fangelsisins.

Fréttablaðið greindi frá kvörtun fanga til umboðsmanns Alþingis vegna fangavarðarins í síðustu viku og í DV í dag er fjallað nánar um málið.

Í samtali við Fréttablaðið Guðmundur að um töluverðan fjölda mála sé að ræða sem tengist umræddum starfsmanni. Hann segir að álit umboðsmanns sé í reynd fyrsta áminningin sem hann fái. „Það að þessi maður hafi aldrei áður fengið áminningu í starfi segir manni að það sé eitthvað mikið að í kerfinu,“ segir Guðmundur og bendir á að eineltismál séu hlutir sem taka þurfi strax á. „Fangar eiga við ýmis vandamál að stríða. Það er ekki til að bæta ástandið að leggja frekara þunglyndi á fanga en þeir eru þegar í vegna frelsissviptingar.“

Mikilvægt að leysa eineltismál

Hann segir mikilvægt að fangelsismálayfirvöld komi upp úrræðum þar sem hægt er að bregðast við kvörtunum fanga yfir hegðun fangavarða. „Þegar fangi leggur annan fanga í einelti þá er tekið á því máli strax og eins þegar fangi leggur fangavörð í einelti þá er hann umsvifalaust sendur í einangrun. Og þegar fangaverðir leggja aðra fangaverði í einelti þá er þeir bara settir í launalaust leyfi,“ segir Guðmundur og bendir á að Afstaða kallaði eftir þessum úrræðum í umsögn um frumvarp um fullnustu refsinga sem samþykkt Alþingi samþykkti fyrr á þessu ári, en án árangurs.

„Flestir fangar eru í mjög stuttan tíma í fangelsunum og eru að láta þetta ganga yfir sig. Aðrir hafa ekki úrræði til að vinna í þessum málum. Það er nauðsynlegt að þegar koma upp eineltismál þá er mikilvægt að þau séu leyst,“ segir Guðmundur.

Hann fagnar því að fangelsismálayfirvöld hyggist nú vinna að úrbótum. „Það hefur aldrei verið tekið á þessu og þetta var frekar algengt hér áður fyrr, en hefur minnkað mjög mikið í dag,“ segir hann.

„Auðvitað eru flestir fangaverðir í lagi og vinna á öðrum forsendum. En það eru alltaf einhverjir sem eru að stunda svona,“ segir Guðmundur.

Ekki náðist í forstöðumanns fangelsisins á Litla-Hrauni né fangelsismálastjóra vegna vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×